7. mar. 2013

Kosningaskjálfti og atkvæðakaup

Það virðist kominn alvarlegur kosningaskjálfti í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna. Aðra ályktun er ekki hægt að draga af lestri frumvarps ríkisstjórnarinnar um stuðning ríkissjóðs við stóriðjuuppbyggingu á Bakka við Húsavík. Verði það samþykkt er líklega um að ræða ein allra dýrustu atkvæðakaup í sögu þjóðarinnar.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að tómur og mikið skuldsettur ríkissjóður greiði um 3,5 milljarða króna með uppbyggingu kísilmálmverksmiðju á Bakka, en áætlað er að fjárfesting þýskra eigenda verksmiðjunnar nemi um 28 milljörðum króna. Málið barst inn á borð ríkisstjórnarinnar þegar sveitarstjórnarmenn á Húsavík gerðu kröfu um það að ríkissjóður kæmi að framkvæmdunum með beinum hætti þegar ljóst var orðið að áætlaðar tekjur af kísilmálmverksmiðjunni myndu ekki standa undir kostnaði við nauðsynlegar breytingar á höfn, undirbúning lóðar og lagningu vega.

Af þessum 3,5 milljörðum sem ríkisstjórnin ætlar að leggja til verksins eru m.a. 819 milljónir í formi láns til Norðurþings til hafnargerðar. Í niðurstöðum arðsemismats hafnarinnar kemur fram að heildararðsemi hafnarinnar verði neikvæð um 1-2% tímabilið 2015-2030 og 3-6% tímabilið 2031-2039. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir að sveitarfélagið muni nokkru sinni greiða af láninu. Lánið er því í raun ríkisstyrkur eins og fjármálaráðuneytið bendir á í umsögn um frumvarpið.

Eins og embættismenn fjármálaráðuneytisins benda á í umsögn um frumvarpið þá greinir ríkissjórnin hvergi frá því hvernig fjármagna eigi þennan stuðning við stóriðju á Bakka. Auk þess segir ráðuneytið að ekki hafa verið gert ráð fyrir þessum útgjöldum, alls upp á 3,5 milljarða króna, í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum 2013-2016. Því verði ekki séð annað en að frumvarpið færi ríkisstjórnina fjær settum markmiðum í ríkisrekstrinum, nema að gripið verði til nýrrar tekjuöflunar með skattahækkunum eða samdrætti í öðrum ríkisútgjöldum.

Þá er það mat fjármálaráðuneytisins að ekki liggi fyrir viðhlítandi greining á því hvort verkefnið muni hafa jákvæð eða neikvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs til lengri tíma litið þegar kostnaður ríkissjóðs og ívilnanir eru meðtalin. Þannig muni framkvæmdirnar hafa þensluáhrif í för með sér sem hækki líttilega vaxtastigið með smávægilegum neikvæðum áhrifum á almenna atvinnuvegafjárfestingu. Á móti mun atvinnuleysi dragast saman um 0,05 prósentustig árin 2016 og 2017 og hagvöxtur aukast um 0,2% árið 2013 og 0,1% árið 2017 en minnka um 0,1% árin 2015 og 2016. Það kann þó að hafa neikvæð áhrif á þessa spá um lítið aukinn hagvöxt ef ríkissjóður þarf að fjármagna framkvæmdir á Bakka með niðurskurði eða með skattahækkunum.

Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er einnig kveðið á um að kísilverið skuli njóta ýmissa skattaívilnanna umfram þær sem kveðið er á um í löggjöf frá árinu 2010 um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Í fyrsta nýtur félagið 15% tekjuskattshlutfalls í stað 20%, í öðru lagi verður það undanþegið tryggingagjaldi í stað þess að fá 20% afslátt af því. Í þriðja lagi þarf fyrirtækið ekki að greiða nein stimpilgjöld í stað 0,15%. Í fjórða lagi mun fyrirtækið njóta 50% afsláttar af fasteignagjöldum í stað 30%. Og í fimmta lagi verður heimilt að veita félaginu frávik frá sköttum og gjöldum í 14 ár í stað 13 ára frá undirritun samnings. Áætlað er að þessar ívilnanir nemi um 100-150 milljónum króna á ári eða um 1-1,5 milljörðum á tíu ára tímabili frá því að starfsemin hefst.

Í umsögn sinni segir fjármálaráðuneytið að nauðsynlegt sé að skoða nánar tillögu ríkisstjórnarinnar um undanþágu frá greiðslu tryggingagjaldsins. Spurning vakni um áhrif undanþágunnar á réttindi starfsmanna fyrirtækisins til þeirra velferðartrygginga og þjónustu sem gjaldinu er ætlað að fjármagna, t.d. Fæðingarorlofssjóðs og lífeyris- og slysatrygginga almannatrygginga. Einnig telur fjármálaráðuneytið ástæðu til að benda á að öll frávik frá almennum reglum skattkerfisins gera skattaframkvæmd flóknari og eftirlit skattayfirvalda erfiðara. Hér er því um afar sérkennilega ráðstöfun að ræða af hálfu vinstristjórnar.

Þetta vafasama frumvarp hefur nú orðið til þess að ríkisstjórnin hefur falið fjármálaráðherra að ræða við fulltrúa Reykjanesbæjar um þátttöku ríkissjóðs í framkvæmdum við stóriðju í Helguvík. Frumvarpið um Bakka er því orðið fordæmi sem sveitarfélög um allt land geta nýtt sér til að krefjast ríkisframlags til stóriðjuuppbyggingar. Þá munu fyrirtæki sem hyggja á fjárfestingu hér á landi líklega fara fram á sömu styrki og ívilnanir og veita á á Bakka. Við vitum því ekki enn hversu háa fjárhæð skattgreiðendur þurfa að greiða fyrir þessi atkvæðakaup ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri-grænna, en hún hleypur á milljörðum.

Það er sérkennilegt til þess að hugsa að þessi ríksstjórn ætli að ljúka sínum störfum á verkum sem einkennast af grímulausu kjördæmapoti, sérhagsmunagæslu stóriðjufyrirtækja og spillingu.