12. nóv. 2012

Samþykkir Alþingi frumvarp um jafnt vægi atkvæða?

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október sögðust rúm 58% kjósenda vilja að í stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt. Rúm 29% voru því andvíg.

Það er gott og blessað að fá slíkt ákvæði í stjórnarskrá. En það er hægt að jafna atkvæðavægi með miklu einfaldari hætti - með lögum.

Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir og Margrét Tryggvadóttir hafa lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lögð er til ný skipting þingsæta milli kjördæma. Eins og segir í greinargerð þá er frumvarpið lagt fram í þeim tilgangi að ná fram fullum jöfnuði í vægi atkvæða.

Fyrir utan að skipta þingsætum upp á nýtt þá leggja þingmennirnir til að landskjörstjórn skipti síðan þingsætum milli kjördæma fyrir hverjar kosningar í réttu hlutfalli við tölu kjósenda.

Ég veit ekki hvað ætti að koma í veg fyrir að Alþingismenn svari kalli 58% kjósenda og hleypi þessu frumvarpi hratt í gegnum þingið.

Eins og fram kemur í fréttaskýringu Morgunblaðsins árið 2009 reyndust 50% fleiri kjósendur á bak við hvert þingsæti í Reykjavíkurkjördæmunum og í Suðvesturkjördæmi en í hinum kjördæmunum þremur í Alþingiskosningunum það árið. Munurinn á milli Suðvestur- og Norðvesturkjördæmis var mestur eða um 100%.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu gerði athugasemdir við þetta og vísaði í tilmæli Evrópuráðsins um að misræmi í atkvæðavægi skuli ekki vera umfram 10% og alls ekki yfir 15%.

Það er ekkert sem ætti að koma í veg fyrir að þingmeirihlutinn lagfæri þetta óréttláta kerfi með lögum - ekki nema þá að viljinn til að viðhalda óréttlætinu sé víðtækari innan þingflokka Samfylkingar og Vinstri-grænna en búast mætti við.