1. nóv. 2012

Heimska, hroki og hagsmunagæsla

Sagt er að heimska og hroki vaxi á sama tré. Bætum þriðja h-inu við, hagsmunum, og útkoman verður eitruð. Það er líklega óvíða sýnilegra en á landsþingum stjórnmálaflokka eins og Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum. Heimskan, hrokinn og hagsmunirnir geisla af Mitt Romney á þessu myndskeiði. Í kjölfar hamfaranna í Bandaríkjunum mun þessi afstaða Romney til loftslagsmála líklega verða honum að falli í forsetakosningunum. Þannig hefur Michael Bloomberg, borgarstjóri í New York, t.d. lýst yfir stuðningi við Obama á þeim forsendum að hann sé líklegri en Romney til að takast á við loftslagsvandann.

Mér er sagt að nokkrir íslenskir stjórnmálamenn hafi heimsótt landsþing Repúblikanaflokksins í haust og þótt mikið til þess koma. Enda virðast velsæmi og virðing vera á hröðu undanhaldi í íslenskum stjórnmálum. Á næstunni fá félagar í flestum stjórnmálaflokkum tækifæri til að velja sína fulltrúa í næstu Alþingiskosningum. Vandið nú valið gott fólk og losið okkur við heimskuna, hrokann og hagsmunagæsluna.