18. okt. 2012

Alþýðusamband án grasrótar

Þing Alþýðsambands Íslands felldi í dag tillögu um að forseti ASÍ yrði kosinn af öllum félagsmönnum innan sambandsins. Tillagan var felld með 210 atkvæðum gegn 50.

Í skoðanakönnunum segist mikill meirihluti almennings vera fylgjandi auknu lýðræði. Það bendir því til þess að sá hópur sem situr þing ASÍ sé sérkennilega saman settur fyrst átta af hverjum tíu þingfulltrúum lögðust gegn því að færa félögum sínum aukið vald í málefnum sambandsins.

Það endurspeglast síðan í afstöðu ASÍ til annarra mála, t.d. verðtryggingar og stóriðju.Átta af hverjum tíu Íslendingum vilja afnema verðtrygginu og fjöldi sérfræðinga hefur varað við afleiðingum hennar fyrir almenna launþega. Samt er ASÍ einn helstivarðhundur verðtryggingarinnar.

Allar skoðanakannanir sýna fram á að fleiri eru andvígir áframhaldandi stóriðjustefnu en fylgjandi. Þá hvatti starfshópur iðnaðarráðherra um erlenda fjárfestingu til þess að ekki yrði sótt sérstaklega eftir frekari fjárfestingu til nýrra álvera vegna áhættu sem fylgir einhæfu atvinnulífi. Samt er ASÍ einn helsti varðhundur stóriðjustefnunnar.

Forysta ASÍ á engar rætur í samfélaginu. Og það sem verra er, hún hefur engan áhuga á að tengjast rótinni eða gerast málsvari hennar. Sú afstaða var staðfest með kosningu á þingi sambandsins í dag.