8. okt. 2012

Mývatn á að njóta vafans

Affallslón við Reykjanesvirkjun, Svartsengi, Hellisheiðarvirkjun og Kröflu. Landsvirkjun fullyrðir að affalsvatn muni ekki safnast upp við fyrirhugaða Bjarnarflagsvirkjun. Myndir: Ómar Ragnarsson.
„Nú liggur alveg ljóst fyrir að Landsvirkjun ætlar að dæla öllu affalsvatni niður fyrir grunnvatn, vel niður fyrir botn Mývatns, ef til virkjunarframkvæmda kemur. Áhrif á grunnvatn eiga því að vera tiltölulega lítil." Þetta er haft eftir starfsmanni Landsvirkjunará Mbl.is í dag.

Samkvæmt tíu ára gömlu umhverfismati ætlaði Landsvirkjun að farga affallsvatni frá fyrirhugaðri Bjarnarflagsvirkjun á yfirborði. Í matinu var fullyrt að ekki væri talin hætta á að yfirborðslosun affallsvatns myndi hafa skaðleg áhrif á lífríki Mývatns.

Þessu var síðar andmælt í umsögn Umhverfisstofnunar um deiliskipulag virkjunarinnar í mars 2011. Stofnunin taldi nauðsynlegt að tryggt yrði að öllu affallsvatni yrði dælt í jarðhitageyminn til að koma í veg fyrir hugsanleg áhrif affallsvatns á umhverfið.

Einnig segir í verndaráætlun Mývatns og Laxár að gera þurfi mun betri grein fyrir áhrifum þess að affallsvatn sé losað á yfirborði og huga jafnframt í meira mæli að niðurdælingu vatnsins.

Þess vegna sneri Landsvirkjun við blaðinu frá því sem sagði í tíu ára gamla umhverfismatinu og segist núna ætla að ,,dæla öllu affallsvatni niður fyrir grunnvatn." Ekkert mál - eða hvað?

Orkufyrirtækin hafa undantekningalaust lent í vandræðum með niðurdælingu affallsvatns við jarðvarmavirkjanir. Þess vegna hafa myndast affallslón við Reykjanesvirkjun, Svartsengi, Hellisheiðarvirkjun og Kröflu, þvert á það sem gert er ráð fyrir í starfsleyfi virkjananna.

Hvaða ástæðu höfum við til að trúa því að affallsvatn verði ekki vandamál við Bjarnarflagsvirkjun með mögulega skaðlegum áhrifum á lífríki Mývatns? Ef það hefur einhvern tímann verið ástæða til að láta náttúruna njóta vafans þá er það núna.

Einstakt lífríki Mývatns skapar því sérstöðu á heimsvísu. Þess vegna segir í nýsamþykktri verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá að það sé skylda núlifandi kynslóðar að varðveita sérstöðu svæðsins og tryggja komandi kynslóðum sama aðgengi og svipaða upplifun og við getum notið í dag. Ábyrgð stjórnar Landsvirkjunar og ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri-grænna er mikil.