8. sep. 2012

Mývatn, eignarnám, ráðuneyti og fjölmiðlar


Landsvirkjun er að fara að virkja við Mývatn, með tíu ára gamalt umhverfismat upp á vasann, án þess að vera búin að fá tryggan kaupanda að orkunni. Fréttastjóri Stöðvar 2 segir fréttina og eina spurningin sem vaknar í huga hans er hvort nú séu ekki að verða tímamót í ,,verksögunni" eftir hrun. Enginn fjölmiðill, nema kannski Akureyri - vikublað, hefur fjallað um möguleg áhrif virkjunarinnar á lífríki Mývatns, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar. Aðstoðarmaður forsætisráðherra fagnar þessum framkvæmdum á fésbók með orðunum ,,Áfram Ísland". Landsvirkjun, fyrirtæki undir stjórn Vinstri-grænna og Samfylkingar, lýkur þannig vegferð sem umhverfisráðherra Framsóknarflokksins hóf árið 2004 með því að afnema vernd svæðisins með lögum.

Í dag var Fréttablaðið notað til að setja þrýsting á innlend orkufyrirtæki í samningaviðræðum þeirra og Century Aluminium um verð á orku til álvers í Helguvík. Einhliða frásögn forsvarsmanna álfyrirtækisins um að framkvæmdir gætu hafist næsta vor, slái orkufyrirtækin nægilega af raforkuverðinu, rataði á forsíðu. Samt var ekkert nýtt í fréttinni - bara endurteknar einhliða yfirlýsingar. Ari Edwald, forstjóri 365 og fyrrverandi forstjóri Samtaka atvinnulífsins og aðstoðarmaður Þorsteins Pálssonar, vinnur fyrir kaupinu sínu. Á sama tíma fara fulltrúar Landsnets, fyrirtækis í opinberri eigu, í fjölmiðla og hóta fólki eignarnámi til að geta lagt háspennulínur fyrir álverið í Helguvík.

Og til að toppa þetta allt þá skipaði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna, Kristján Skarphéðinsson nýverið ráðuneytisstjóra í atvinnuvegaráðuneytinu. Sá stóð vaktina í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu á tímum Kárahnjúkavirkjunar. Hann var handvalinn af Steingrími, sem valdi að auglýsa stöðuna ekki lausa til umsóknar. Fjölmiðlar hafa ekkert fjallað um bakgrunn ráðuneytisstjórans þótt hann sé einn valdamesti maður landsins á sviði orkumála, orkufreks iðnaðar, jarðrænna auðlinda, fjármálamarkaðarins og annarra viðskiptamála.

Traust á fjölmiðlum mældist 15% árið 2009 og traust á Alþingi 10% fyrr á þessu ári. Enda engin furða. Þessar stofnanir gættu ekki nægilega vel hagsmuna almennings þegar fjármálafyrirtæki og verktakaiðnaðurinn sköpuðu fasteigna- og fjármálabólu í aðdraganda hrunsins. Fjölmiðlar og flestir stjórnmálamenn tóku virkan þátt í að búa bóluna til - ýmist með beinum stuðningi eða þögninni. Nú vinna fjármálastofnanir og verktakar að því hörðum höndum að búa til næstu bólu - orkubóluna. Frammistaða flestra stjórnmálamanna og fjölmiðla er eins og fyrr, þeir ýmist lýsa í aðdáun sérstökum stuðningi við þróunina eða þegja vegna áhugaleysis