12. sep. 2012

Forræðishyggja Ríkisútvarpsins

Síðdegisútvarp Rúv fól tveimur fréttamönnum að greina frá innihaldi fjárlagafrumvarpsins í dag. Fréttamennirnir fjölluðu m.a. um tillögur um að vörgjöldum á matvæli verði breytt þannig að þau taki meira mið af manneldismarkmiðum. Sem þýðir að verð á óhollum drykkjum og matvælum hækkar.

Þetta leist fréttamönnunum hreint ekki vel á og varð tíðrætt um forræðishyggju: ,,Það er svona forræðishyggja, hún kemur þarna í gegn". Í þrígang sögðu þeir að í tillögunum fælist forræðishyggja.

Því miður hafa þessir fréttamenn líklega ekki horft á eigin fréttatíma 4. og 5.september þar sem fjallað var um offitu og matarfíkn. Samkvæmt þeim eru tæp 40% þjóðarinnar yfir kjörþyngd og þar af glímir helmingur við offitu. Í fréttunum sagði að þróunin undanfarna áratugi hefði verið ,,ískyggileg". Árið 1990 hefðu 8% glímt við offitu, 13% árið 2002 og nú væri þetta hlutfall komið í 21%.

Og fréttamennirnir yfirlýsingaglöðu hafa líklega heldur ekki lesið leiðara framkvæmdastjóra SÍBS í nýjasta tölublaði samtakanna þar sem hann lýsir því hvernig virðisaukaskattur af gosdrykkjum lækkaði úr 24,5% í 7% árið 2007 og vörugjöld afnumin. Markmiðið með tillögum fjárlagafrumvarpsins í ár er meðal annars að leiðrétta þetta í samræmi við manneldismarkmið. Framkvæmdasjtóri SÍBS sagði í pistli sínum: ,,Þótt Íslendingar séu opinberlega feitasta Norðurlandaþjóðin höfum við enn ekki tekið það skref að skattleggja óhollustuna sjálfa, líkt og nágrannalöndin hafa gert. ... Skattlagning óhollrar matvöru er óhjákvæmileg aðgerð. Rétt eins og með afleiðingar ofneyslu áfengis, koma afleiðingar ofneyslu sykurs öllu samfélaginu við."

Fréttamennirnir hafa líklega ekki heldur lesið bloggfærslur Vilhjálms Ara Arasonar læknis um offitufaraldurinn, ofneyslu sykurs og sykurfíkn. Í einum pistli ritar hann: ,,Er ekki kominn tími til að íslensk yfirvöld bregðist við þeim alvarlega heilbrigðisvanda sem mikil ofneysla sykurs stefnir þjóðfélaginu í? ... Ekkert fyrirbyggjanlegt og jafn alvarlegt heilbrigðisvandamál er jafn brýnt að leysa sem fyrst."

Offita, hjarta- og æðaskjúkdómar og áunnin sykursýki eru þegar farin að kosta skattgreiðendur á Vesturlöndum gríðarlegar fjárhæðir með auknu álagi á heilbrigðiskerfið. Þannig situr allur almenningur uppi með kostnað sem framleiðendur gosdrykkja, sælgætis og skyndibita valda. Með tillögum í fjárlagafrumvarpinu er stigið eitt stutt skref í þá átt að færa þennan kostnað á herðar þeirra sem bera ábyrgð á honum. Á móti því hafa framleiðendur óhollustu barist af mikilli hörku, m.a. með áróðri um forræðishyggju. Þeir hljóta að gleðjast yfir óvæntum liðsauka frá fréttamönnum Ríkisútvarpsins í þeirri baráttu.