25. ágú. 2012

Orkufyrirtæki utan lýðræðislegs valds

Í öllum þróuðum ríkjum kann að skapast ástand þar sem ein tegund iðnaðar nær það miklum efnahagslegum völdum og hugmyndafræðilegum áhrifum að hann fær að starfa og vaxa óáreittur þrátt fyrir að hann þjóni ekki lengur hagsmunum heildarinnar. Árið 1961 varaði Eisenhower forseti Bandaríkjanna við slíkri þróun hergagnaiðnaðarins og sagði að stjórnvöld og almenningur yrðu að gæta þess að hann kæmist ekki til of mikilli áhrifa á skrifstofum sveitarstjórna, opinberra stofnana og ráðuneyta - í samfélaginu öllu. Eisenhower brýndi því fyrir almenningi að vera upplýstur og á varðbergi til að gæta lýðræðisins og eigin hagsmuna.

Á Íslandi hefur virkjanaiðnaðurinn komist til slíkra valda. Virkjanaiðnaðurinn samanstendur af verktakafyrirtækjum, verkfræðistofum, fjármálastofnunum og orkufyrirtækjum sem hafa gríðarlegt efnahagslegt vald sem þau beita til að hafa hugmyndafræðileg áhrif á ýmis samtök, fjölmiðla, háskóla og stjórnmálaflokka. Þessum völdum hefur virkjanaiðnaðurinn beitt til að skapa sér nær takmarkalaust frelsi til framkvæmda án tillits til hagsmuna og vilja almennings.

Dæmi um þetta takmarkalausa frelsi er sú stefna Landsvirkjunar að tvöfalda orkuframleiðslu sína á næstu fimmtán árum. Sú stefna byggir ekki á neinum lýðræðislegum grunni og hún kann líka að skaða hagsmuni almennings með mjög miklum þensluáhrifum í hagkerfinu og fórn verðmætrar náttúru. Annað og nýlegra dæmi er ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur að sækja um rannsóknarleyfi vegna Hrafnabjargarvirkjunar í Skjálfandafljóti. Ákvörðunin var ekki borin undir eigendur Orkuveitunnar þrátt fyrir að fyrirtækinu hafi borið að gera það samkvæmt greinum 3.5 og 8 í eigendastefnu Orkuveitu Reykjavíkur sem borgarstjórn samþykkti í júní.

Virkjanaiðnaðurinn stendur utan eða ofan við hið lýðræðislega vald. Stjórnmálamenn virðast ófærir um að temja hann og fjölmiðlar og fræðasamfélagið virðast áhugalaus um að veita honum aðhald. Almenningur er áhrifalaus áhorfandi. Virkjanaiðnaðurinn fer með völdin