30. júl. 2012

Þjónustustofnun orkufyrirtækjanna


Fréttablaðið greindi nýverið frá rannsóknarleyfum sem Orkustofnun hefur veitt þrátt fyrir að enn sé unnið að sátt um niðurstöðu rammaáætlunar. Þegar er búið að veita rannsóknarleyfi í Stóru Laxá og stofnunin hefur til meðferðar þrjár umsóknir um rannsóknarleyfi vegna Hagavatnsvirkjunar, Búðartunguvirkjunar í Hvítá ofan við Gullfoss og í Skjálfandafljóti.

Blaðið hefur eftir forstöðumanni Orkustofnunar á þriðjudag að stofnunin verði að fara eftir þeim lögum sem í landinu gilda um útgáfu leyfanna: ,,Þangað til rammaáætlun er samþykkt gildir núverandi lagaumhverfi, sem er í raun og veru það sem hefur gilt um virkjanir hingað til. Ef menn vilja leggja einhver sérstök bönd á virkjanir þá verða þeir að fara með það í gegnum löggjafarvaldið."

Fréttablaðið hefur svo eftir mér á fimmtudag að engin skylda hvíli á Orkustofnun um útgáfu rannsóknarleyfa. Hægt sé að nýta vinnuna við rammaáætlun sem rökstuðning fyrir því að bíða með veitingu þeirra. Og svo segi ég eitthvað um að forsvarsmenn Orkustofnunar túlki þetta eins og maður ímyndi sér að orkufyritækin vilji að þeir geri: ,,Þeir taka þann pólinn í hæðina, í stað þess að fara hófsamari leið sem væri líklegri til að stuðla að einhverri sátt í samfélaginu."

Það sem ekki kemur fram í frétt blaðsins er að ég byggi þessa skoðun mína meðal annars á grein fyrrverandi yfirlögfræðings Orkustofnunar í Morgunblaðinu 4. febrúar þar sem hann fjallar meðal annars um tilmæli iðnaðarráðherra til Orkustofnunar árið 2011 þar sem stofnuninni var bannað að gefa út rannsóknarleyfi þar til rammaáætlun yrði afgreidd á Alþingi, en þó ekki lengur en til 1. febrúar síðastliðinn. Um þessi tilmæli fjallaði ég í pistli í janúar á þessu ári. Fyrrverandi yfirlögfræðingur Orkustofnunar spyr í greininni hvort Orkustofnun sé nú heimilt að gefa út rannsóknarleyfi ,,eins og enginn sé morgundagurinn?" Hann svarar sjálfur þessari spurningu svo: ,,Í þessu felst eingöngu að ráðherra og Orkustofnun er heimilt en ekki skylt að veita umbeðin leyfi. Það hvílir því ekki lögboðin skylda á þessum stjórnvöldum að veita leyfi og í raun að taka umsóknir til umfjöllunar. Í skjóli valdheimilda sinna geta þessi stjórnvöld, óháð tilmælum eða öðru sambærilegu plaggi, hafnað útgáfu umbeðinna leyfa. Eftir sem áður þurfa allar ákvarðanir að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og virðingu við stjórnsýslulög og á það við í þessu sem og öðru. Það er því ljóst að Orkustofnun getur að eigin frumkvæði hafnað því að veita rannsóknarleyfi svo lengi sem málefnaleg rök búa þar að baki. Þetta er því á endanum spurning um vilja og staðfestu frekar en yfirfærslu á ákvörðunartöku - þ.e. er lægra sett stjórnvald tilbúið til að taka af skarið?"
Í þessu ljósi er augljóst að lagatúlkun forstöðumanns Orkustofnunar í áðurnefndri frétt Fréttablaðsins tekur mjög mið af afstöðu og óskum orkufyrirtækjanna en ekki almannahagsmunum, stefnu stjórnvalda eða mögulegri samfélagssátt.

Þessi afstaða forstöðumannsins hefur löngum verið ljós. Í janúar 2011 bókuðu fulltrúar Samtaka ferðaþjónustunnar og umhverfisráðherra í verkefnisstjórn rammaáætlunar sérstök vonbrigði með að forstöðumaður Orkustofnunar hefði í fjórgang veitt rannsóknarleyfi fyrir virkjanir sem voru til meðferðar í rammaáætlun, þ.á.m. í Gjástykki. Tvö þessara leyfa voru á lítt röskuðum svæðum sem talin eru mjög verðmæt náttúrufarslega: ,,Rask vegna rannsóknaborana, umferðar og annarra framkvæmda getur haft verulega neikvæðar afleiðingar fyrir náttúru og verðmæti svæðanna. Leyfisveitingin er í andstöðu við yfirlýsta stefnu stjórnvalda." Enda stóð í yfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálftæðisflokks og Samfylkingar sem hóf vinnu að 2. áfanga rammaáætlunar og skipaði verkefnisstjórnina að þar til vinnu við þann áfanga lyki væri stefnan sú ,,að ekki verði farið inn á óröskuð svæði án samþykkis Alþingis og rannsóknar- eða nýtingarleyfi liggi fyrir." Í fréttatilkynningu iðnaðarráðuneytisins 20. maí 2010 er þetta áréttað: ,,Engin stefnubreyting hefur orðið í iðnaðarráðuneytinu frá því að ráðherra lýsti yfir því í júlí 2007 að rannsóknarleyfi yrðu ekki gefin út á óröskuðum svæðum fyrr en niðurstaða rammaáætlunar um verndun og nýtingu lægi fyrir." Í þessari bókun fulltrúa í verkefnisstjórn rammaáætlunar sagði svo: ,,Ákvörðun Orkustofnunar að veita rannsóknaleyfi fyrir Búlandsvirkjun og síðan fyrir Gjástykki gæti rýrt tiltrú almennings á gildi rammaáætlunar og að eitthvað sé að marka stefnumið stjórnvalda. Við teljum hana því miður líklega til að draga úr líkunum á því að um rammaáætlun náist sú sátt sem að var stefnt."

Forstöðumaður Orkustofnunar virðist hafa leynt og ljóst reynt að spilla fyrir sátt um virkjanamál og framgangi rammaáætlunar. Ætli iðnaðarráðherra Vinstri-grænna sér að standa undir merkjum þá mun hann auglýsa stöðu forstöðumanns Orkustofnunar lausa til umsóknar áður en skipunartíma hans lýkur um næstu áramót. Ef þetta axarskaft þykir ekki nægilegt tilefni til þess þá má vísa í önnur, t.d. gjaldskrárklúður upp á milljarða og glannalegar yfirlýsingar um tilboð í olíuleit sem Orkubloggið fjallaði nýverið um:

,,Miðað við þau ummæli forstjóra Orkustofnunar að umsóknir núna séu framar björtustu vonum, virðist reyndar nánast öruggt að a.m.k. ein eða jafnvel fleiri af þessum umsóknum hljóti að leiða til sérleyfis. Slík yfirlýsing stjórnsýsluhafa á þessum tímapunkti, þ.e. áður en stofnunin var búin að yfirfara umsóknir af kostgæfni, er svolítið óvænt og kannski á mörkum þess að vera viðeigandi".