14. ágú. 2012

Árásin á Ísland


Hernaðurinn gegn landinu er nú orðinn að einni allsherjarárás. Orrustur geysa t.d. um flest jarðhitasvæði á Reykjanesskaga og suðvesturlínu, neðri hluta Þjórsár, hálendislínu, Skjálfandafljót, Bjarnarflag, Þeistareyki og Blöndulínu 3.

Ætlun Landsvirkjunar er að tvöfalda orkuframleiðslu sína á fimmtán árum. Þar að auki ætla Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur að auka sína orkuframleiðslu. Þá stefnir Landsnet að stórfelldri uppbyggingu á raforkulínum fyrir stóriðjuna. Markmiðið er að gjörnýta Ísland.

Hernaðaráætlun orkufyrirtækjanna gengur út á að hafa svo mörg járn í eldinum að náttúruverndarfólk nái ekki að verjast á skipulagðan hátt. Orkufyrirtækin, verktakafyrirtækin og verkfræðistofurnar velta milljörðum og hafa úthald í langvarandi allsherjarhernað. Náttúruverndarhreyfingin er aftur á móti óskipulögð hreyfing fólks sem hefur hvorki fjárráð né mannafla til að heyja margar orrustur í einu.

Í gær talaði ég við ungan mann sem fór í fyrsta skipti á Þeistareyki í sumar. Hann trúði því ekki að Landsvirkjun væri við það að hefja framkvæmdir á svæðinu - að orrustan væri töpuð. Ég sagði að við hjá Landvernd hefðum beitt okkar hefðbundnu vopnum, við hefðum skrifað greinar, haldið fundi og sent inn umsagnir um frummatsskýrslu, deiliskipulag og rammaáætlun. Skiljanlega þótti unga manninum lítið til þess koma. Ekkert af þessu hefði getað komið í veg fyrir virkjanaáform Landvirkjunar við Þeistareyki.

Ungi maðurinn sagðist aldrei hafa heyrt talað um þessi virkjanaáform af neinni alvöru í sínum heimabæ á Norðurlandi, hvað þá að hann hefði verið spurður álits á því hvort virkja ætti á Þeistareykjum.

Þannig virkar árásin á Ísland. Orrustur verða háðar svo víða að náttúruverndarhreyfingin veit ekki hvar hún á að beita þeim fáu og veiku vopnum sem hún býr yfir og almenningi verður haldið óupplýstum og valdalausum.

Fyrr en varir verður Landsvirkjun búin að tvöfalda orkuframleiðslu sína, öræfakyrrðin verður rofin á Þeistareykjum, Mývatni verður spillt, hálendið klofið með háspennulínu, búsetuskilyrðum fólks spillt við Þjórsá og Reykjanesskaginn gerður að samfelldu iðnaðarsvæði. Þá verður árásin varla hálfnuð.

Er nokkur furða að ungi maðurinn hafi lokið samtali okkar á því að segja að nú væri kominn tími á alvöru aðgerðir til varnar landinu.