24. maí 2012

Orkustofnun metur starfsemi Landverndar

Nú er ár liðið frá því að ég tók við formennsku hjá umhverfisverndarsamtökunum Landvernd. Á þeim tímamótum var skemmtilegt að fá bréf frá Orkustofnun, undirritað af Guðna A. Jóhannessyni orkumálastjóra, þar sem stjórnsýslu- og rannsóknarstofnunin gefur starfsemi samtakanna þessa einkunn:

,,Stofnunin telur einnig að starf og málefnavinna Landverndar hafi yfirleitt einkennst af vönduðum og yfirveguðum málatilbúnaði og skapað Landvernd sterka stöðu sem álitsgjafi í þessum málaflokki. Á síðasta starfsári samtakanna hefur hins vegar slegið nokkuð í bakseglin."

Að fá slíkan dóm úr þessari átt er líklega bestu meðmæli sem umhverfisverndarsamtök geta fengið. Kærar þakkir, orkumálastjóri.

Þeim sem vilja kynna sér starf Landverndar á starfsárinu 2011-2012 er bent á nýútkomna ársskýrslu Landverndar. (Vefútgáfa / pdf-skjal).