5. jún. 2012

Wow, Icelandair!

Icelandair hélt upp á 75 ára afmæli félagsins með því að samþykkja stefnumótun um umhverfisvottun félagsins. Á heimasíðu Icelandair segir af þessu tilefni: ,,Icelandair Group hefur í dag mótað þá stefnu að öll fyrirtæki innan samstæðunnar verði umhverfisvottuð ekki síðar en árið 2016 og undirstriki þannig þá sýn félagsins að náttúran er helsta aðdráttarafl ferðamanna sem koma til landsins, og verndunar- og endurnýjunarstarf gagnvart náttúru og auðlindum landsins er forsenda fyrir vexti og viðgangi Icelandair Group."

Music to my ears. Við skulum lesa þetta aftur og núna upphátt. Öll saman: ,,... verndunar- og endurnýjunarstarf gagnvart náttúru og auðlindum landsins er forsenda fyrir vexti og viðgangi Icelandair Group."

Það er greinilegt að ferðaþjónustan, með fyrirtæki innan Samtaka atvinnulífsins í broddi fylkingar, hefur orðið nægilegt sjálfstraust til að lýsa yfir afdráttarlausum stuðningi við aukna náttúruvernd. Enda er ferðaþjónustan orðin næst stærsta stoðin í atvinnulífinu á eftir sjávarútvegi. Yfirlýsing Icelandair er til marks um þetta aukna sjálfstraust. Það er einnig umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða frá 8. maí síðastliðnum. Þar er t.d. vakin athygli á að yfir 80% erlendra ferðamanna sækja Ísland heim vegna óspilltrar náttúru. Því sé mikilvægt að halda landslagsheildum óröskuðum svo samkeppnisgrundvelli íslenskrar náttúru sé viðhaldið.

Í umsögninni er því fagnað að Bitrusvæðið sé sett í verndarflokk, en Orkuveita Reykjavíkur harmaði það sérstaklega. En Samtök ferðaþjónustunnar ganga enn lengra og benda á að virkjanir í Innstadal, Þverárdal og Ölfusdal muni raska fegurð Bitrusvæðisins og leggja því til að þessi svæði verði öll vernduð!

Þetta segja svo Samtök ferðaþjónustunnar um umdeilar tillögur um að gjörnýta Reykjanesskagann: ,,Samtök ferðaþjónustunnar leggjast gegn virkjun á Sveifluhálsi og telja að svæðið væri betur nýtt sem Reykjanes Geopark til framtíðar en slíkur garður er nú í bígerð á svæðinu. Svæðið hefur verið mjög vinsælt í gegnum árin og má reikna með að gestir á Krísuvíkursvæðinu séu nú yfir hundrað þúsund á ári. Með aukinni eflingu innviða á svæðinu, eins og Suðurstrandavegi og vegi um Ósabotna, má reikna með að ásókn ferðamanna í svæðið verði mun meiri í framtíðinni og benda SAF á að eins og fram hefur komið séu miklar líkur á að verðmæti nærsvæða Reykjavíkur aukist mikið hvað varðar ferðaþjónustu á næstu árum."

Vonandi mun forysta Samtaka atvinnulífsins taka aukið tillit til hagsmuna fyrirtækja í ferðaþjónustu á næstunni. Um leið gæti hún slegið af kröfu sinni um að skuldsett orkfyrirtæki í almannaeigu verði sökkt í enn frekari skuldir til að sinna lítt arðbærri orkusölu til stóriðju.