10. maí 2012

Vanhæfi lögfræðings Orkustofnunar

Ég sendi orkumálastjóra og þingmönnum atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis bréf í dag þar sem ég lýsti þeirra skoðun minni að Skúli Thoroddsen, lögfræðingur Orkustofnunar og fyrrverandi framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, hafi verið vanhæfur til að fjalla um virkjanahugmyndir rammaáætlunar, en hann undirritaði umdeilda umsögn Orkustofnunar um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun).

Umræddur lögfræðingur Orkustofnunar hefur að mínum dómi gert sig vanhæfan til að taka þátt í hlutlægri afgreiðslu fagstofnunar um virkjanahugmyndir með eindregnum yfirlýsingum um einstaka virkjanahugmyndir og virkjanamál almennt. Þessar yfirlýsingar má meðal annars lesa í pistli hans á eigin heimasíðu 19. mars 2011:

,,Þess vegna er enn mikilvægara að ríkisvaldið beiti sér sérstaklega fyrir stórátaki og þá dugir ekki bara stækkun álversins í Straumsvík, Búðarhálsvirkjun, kísilmálmverksmiðja í Helguvík, hreinkísilverksmiðja í Grindavík og natríumklóratverksmiðja á Grundartanga. Betur má ef duga skal. Nærtækasta og öflugasta verkefnið er enn og aftur álverið í Helguvík, en þá þarf að virkja í neðri hluta Þjórsár."

,,Komi þessi fjárfesting ekki til þarf að skerða enn meira á spítölum og í skólunum, draga úr þjónustu ríkis- og sveitarfélaga, hækka álögur og atvinnuleysið mun aukast en ekki minnka og er það þó ærið fyrir. Ef ríkisstjórnin velur þá leið á hún ekki lengur erindi. Þá er hún að velja þá leið sem heldur kaupmætti niðri og varanlegri fátækt. Íslenska kotsamfélagið verður að veruleika. Samfylkingin verður að taka af skarið um atvinnuskapandi verkefni í ríkisstjórninni. Þar munar mest um álverið í Helguvík og virkjun í neðri hluta Þjórsár."

Í bréfi mínu til orkumálastjóra fór ég fram á að stofnunin dragi til baka umsögn sína og að hún verði skrifuð að nýju af óhlutdrægu fagfólki stofnunarinnar. Verði stofnunin ekki við þessu mun ég óska eftir að umboðsmaður Alþingis taki málið til skoðunar.