4. apr. 2012

Stýrir Framtakssjóði eftir gjaldþrot og lögbrot

Samkeppniseftirlitið ákvað í gær að Síminn þyrfti að greiða 440 milljónir króna í sekt fyrir brot á samkeppnislögum. Í niðurstöðu stofnunarinnar segir meðal annars:  ,,Umrædd brot Símans áttu sér stað á árunum 2001 til ársloka 2007 og teljast mjög alvarleg. Þá hefur Síminn áður brotið gegn samkeppnislögum og er í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins talið hæfilegt að leggja á fyrirtæki sekt að fjárhæð 390 mkr. Er það hæsta sekt sem lögð hefur verið á fyrirtæki hér á landi vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu."
Það er fróðlegt að slá nafni Símans inn í leitarvél heimasíðu Samkeppniseftirlitsins. Niðurstaðan bendir til þess að þeir sem hafa stjórnað fyrirtækinu undanfarin ár hafi annaðhvort ekki verið miklir sérfræðingar í samkeppnislögunum eða borið litla virðingu fyrir þeim.
Berast þá böndin að Brynjólfi Bjarnasyni, forstjóra Símans og Skipta árin 2002 til 2010. Einhver hlýtur ábyrgð hans að vera á lögbrotum fyrirtækisins.
Brynjólfur Bjarnason hætti sem sagt hjá Símanum og Skiptum árið 2010 og var fyrirtækið þá í miklum fjárhagsvanda. Auk þess hafði fréttastofa Stöðvar 2 greint frá því í október 2009 að einkahlutafélag í eigu Brynjólfs, Lambi efh, skuldaði hátt í þúsund milljónir króna og óvíst væri hvort hann gæti nokkuð greitt af láninu þar sem eignir félagsins, hlutabréf í Exista, voru verðlaus. Í febrúar á þessu ári greindi Viðskiptablaðið svo frá því að félag í eigu Brynjólfs, B-17 efh (áður Lambi ehf), hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Engar eignar voru í þrotabúinu en kröfur á það hljóðuðu upp á 952 milljónir.
Eftir þetta hefði maður haldið að ferli Brynjólfs Bjarnasonar í íslensku atvinnulífi væri lokið. Þetta er ekki beint glæsilegur ferill samkeppnislagabrota, tapreksturs og gjaldþrota. En svo var aldeilis ekki raunin. Í mars var Brynjólfur ráðinn framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands sem er að stærstum hluta í eigu sextán lífeyrissjóða og Landsbankans og er líklega eitt valdamesta fyrirtækið í atvinnulífinu um þessar mundir.
Þannig hefur Brynjólfi Bjarnasyni, þrátt fyrir sinn feril í atvinnulífinu, verið falið að stýra því hvernig stórum hluta lífeyrissparnaðar almennings verður varið til fjárfestinga í atvinnulífinu og til að fara með stóran hlut í samkeppnisfyrirtækjum á borð við N1, Advania og - hér kemur rúsínan í pylsuendanum - Vodafone. Maðurinn sem stýrði Símanum á þeim tíma sem fyrirtækið stundaði ,,mjög alvarleg" brot á samkeppnislögum hefur nú fengið tögl og hagldir á öðru símafyrirtæki.
Þá hljóta forystumenn lífeyrissjóðanna, eigenda Framtakssjóðsins, að gera athugasemdir við ráðningu Brynjólfs því að í fyrsta bindi skýrslu um fjárfestingar lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins segir meðal annars frá því hvernig tíu milljarða króna hlutur sjóðanna í Skiptum varð verðlaus í lok árs 2008 eftir viðskiptafléttu forsvarsmanna Exista og Skipta.
Annaðhvort hefur stjórn Framtakssjóðsins tekið ákvörðun um að ráða Brynjólf í mikilli fljótfærni og að óathuguðu máli eða þá hitt, sem mér þykir ólíklegra, að hún ber litla eða enga virðingu fyrir íslenskum neytendum og lífeyrissjóðsgreiðendum. Eitt er þó alveg öruggt - stjórninni hefur orðið á mikil mistök.