7. mar. 2012

Hverjum treysta Samfylking og Besti best?

orgarbúar standa nú frammi fyrir miklum vanda sem meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar þarf að takast á við. Skuldbindingar vegna fyrirhugaðrar Hverahlíðavirkjunar og lélegur orkusölusamningur við Norðurál virðast vera að gera út af við fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur.

Í kvöldfréttum Rúv sagði Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitunnar, að jafnvel þó að fyrirtækið losnaði undan samningi um sölu á raforku til Norðuráls þá stæði eftir að það væri búið að fjárfesta gríðarlega í borunum og tilraunum og skuldbinda Orkuveituna til þess að kaupa mikinn búnað fyrir ,,fleiri fleiri milljarða" og einhvern veginn þyrftu stjórnendur fyrirtækisins að ráða fram úr því ,,hvað eigi að gera við þetta allt saman."
Það hafa greinilega verið gerð mjög alvarleg mistök í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur á ákveðnu tímabili. Þá réðu þar ríkjum menn með litla þekkingu á rekstri fyrirtækja sem iðkuðu stóriðjustefnu eins og trúarbrögð. Við skulum rifja upp nokkur brot úr skýrslu sem unnin var fyrir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur á liðnu ári:

,,Rýnihópur vekur athygli á þeim áhættum sem kunna að felast í hugsanlegu vanmati á kostnaði vegna túrbína og borana annars vegar og hugsanlegu ofmati hins vegar sem kann að felast í tekjuáætlun af sölu raforku úr lokaáfanga Hellisheiðarvirkjunar."

,,Rýnihópur bendir ennfremur á að raforkusölusamningar vegna Hellisheiðarvirkjunar og síðar Hverahlíðavirkjunar bera einnig keim af mikilli áhættusækni stjórnenda og stjórnar OR sem birtist m.a. í vöntun á innbyggðum áhættuvörnum og fyrirhyggjuleysi varðandi langtímafjármögnun þessara stóru verkefna."

,,Fyrirtækið hélt óbreyttri fjárfestingarstefnu árin 2007 og 2008 í virkjunum og veitum þrátt fyrir að ekki tókst að tryggja nauðsynlega langtímafjármögnun þeirra. ... Spurningunni um hvers vegna kom ekki til endurskoðunar á fjárfestingum OR svara stjórnendur ekki með skýrum hætti þannig að óljóst er hvort rekja má ástæðuna til stjórnunarlegra mistaka við samningagerð og/eða andvaraleysis gagnvart gerbreyttum aðstæðum á fjármálamörkuðum strax á árinu 2007 og á næstu misserum eftir það."

Mistök og andvaraleysi stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur á þessu tímabili urðu til þess að fyrirtækið rambar nú á barmi gjaldþrots. Almenningur mun líklega þurfa að greiða stóriðjustefnuna dýru verði með framlögum úr borgarsjóði eða miklum hækkunum á orkuverði.

Viðbrögð meirihluta Besta flokks og Samfylkingar við þessari stöðu hafa hvorki verið sannfærandi né hughreystandi. Fulltrúar flokkanna reyna nú að leysa málið undir leiðsögn KPMG og Norðuráls, sem reyna nú að sannfæra lífeyrissjóðina um að nota sparnað almennings til að byggja virkjun sem enginn veit hvað á eftir að kosta og sem reist verður til að standa við óhagkvæman orkusölusamning við Norðurál. Það á reyndar eftir að reynast KPMG og Norðuráli auðveldara en ætla mætti vegna þess að forystumenn lífeyrissjóðanna eru líka forystumenn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins. Þeir munu ekki láta hagsmuni almennings vefjast fyrir sér þegar kemur að því að seilast til valda og áhrifa í gjaldþrota orkufyrirtæki í opinberri eigu..

Rannsóknarnefnd um starfsemi lífeyrissjóðanna segir að forystumenn sjóðanna hafi tapað 500 milljörðum af almannafé á fáum árum. Það þarf enga rannsóknarnefnd til að staðfesta að Norðurál byggði rafmagnslaust álver í Helguvík. Og það er ekki liðinn mánuður síðan að sérstakur saksóknari gerði húsleit hjá KPMG. Treysta borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar þessum aðilum best til að leysa vanda Orkuveitu Reykjavíkur á lokuðum fundum, fjarri sjónum almennings og fjölmiðla? Er ekki kominn tími til að hleypa almenningi að borðinu þar sem framtíð Orkuveitu Reykjavíkur verður ákveðin? Það er nú einu sinni hann sem situr uppi með reikninginn.