4. mar. 2012

Heiður og sómi Samtaka iðnaðarins

Heimspekimenntaði tónlistarmaðurinn Svavar Knútur Kristinsson skrifaði ágæta grein um íslenska rökræðuhefð sem birtist í Morgunblaðinu í miðri Kárahnjúkadeilunni árið 2003. Þar fjallaði hann um það sem hann kallar rökníðslu, sem gefur rökþrota einstaklingi tækifæri til að sleppa við að takast á við sjálf málefnin með einföldum níðingsskap og rógburði:

,,Í raun má segja að upphrópanir um kaffihúsapakk og óvini framfara minni frekar á gyðingahatursmangarana í þriðja ríkinu. Reynt er að gera saklausu fólki upp illan ásetning og vont eðli. ... Það er sorglegt að við skulum, sem siðmenntað samfélag, ekki geta leyst úr ágreiningi án þess að grípa til hatursáróðurs".

Sem betur fer virðist minna orðið um rökníðslu í umræðum um umhverfismál í dag. En hún lifir góðu lífi á öðrum sviðum, t.d. í umræðunni um efnahagsmál og lífeyrissjóðina. Þannig beitti Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins og formaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, rökníðslunni í grein um Helga í Góu sem birtist bæði í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu um helgina, en Helgi í Góu hefur um árabil gagnrýnt starfsemi og fjárfestingar lífeyrissjóðanna.

Í grein sinni svarar formaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna og Samtaka iðnaðarins í engu gagnrýni á lífeyrissjóðina en einbeitir sér að því að gera Helga í Góu tortryggilegan: ,,Það er ekki annað hægt en að gruna þennan athafnamann um þá græsku að ætla með einkennilegum málflutningi sínum um lífeyrissjóði að vekja athygli á sér og páskaeggjaframleiðslu sinni í enn eitt skiptið."

Rifjum aftur upp hvað Svavar Knútur sagði um rökníðslu: Gefur rökþrota einstaklingi tækifæri til að sleppa við að takast á við sjálf málefnin með einföldum níðingsskap og rógburði.

Orðin heiður og sómi eru líklega ekki mikið notuð í höfuðstöðvum Samtaka iðnaðarins um þessar mundir.