7. feb. 2012

Skynsemi vék fyrir hugmyndafræði

Það kemur því miður ekki á óvart að enginn ætli að axla ábyrgð á afglöpum í rekstri lífeyrissjóðanna. Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna koma fram í fjölmiðlum og reyna að snúa á fréttamenn og almenning með dæmigerðum orðhengilshætti hins seka. Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, sagði t.d. í Kastljósi í gær að það væri ekkert óeðlilegt við að þiggja boðsferðir vegna þess að boðsferðir væru ekki boðsferðir! Ég hló yfir þessu viðtali - þangað til að það rifjaðist upp fyrir mér að ég er skyldaður til þess með lögum að borga þessum manni stóran hluta launanna minna um hver mánaðamót!

Sá sem hefur komist næst því að viðurkenna mistök er Pétur H. Blöndal sem segist í viðtali við DV í dag hafa hugleitt að axla ábyrgð á sínum þætti í þessu klúðri. Hans sök er að hafa tekið þátt í að móta lagaumhverfi sem leiddi til þess að lífeyrissjóðirnir töpuðu einhverjum 500 milljörðum króna af lífeyri almennings og sköpuðu bólu í hagkerfinu sem almenningur þarf nú að borga með auknum skattgreiðslum, verðbólgu, hruni krónunnar og hækkunum á verðtryggðum húsnæðislánum.

Í lok viðtalsins lætur Pétur þessi orð falla: ,,Ég tek á mig þá ábyrgð að hafa fallið í þá gryfju með öllum hinum að horfa ekki á frumvörp frá ríkisstjórninni með gagnrýnum augum. Að velta því ekki fyrir sér hvort þetta var skynsamlegt eða ekki."

Þetta útskýrir svo margt, til dæmis hvers vegna Alþingi samþykkti 90% tillagna Viðskiptaráðs. Á Alþingi, eins og víðar í samfélaginu, vék almenn skynsemi fyrir hugmyndafræði græðginnar. Afleiðingarnar þekkjum við.