26. feb. 2012

Ófrumlegt og leiðinlegt hjá Besta flokknum

Besti flokkurinn ætlaði að gera Reykjavík að skemmtilegri borg. Í aðgerðaáætlun flokksins segir meðal annars: ,,Besti flokkurinn vill innleiða skemmtilegar nýjungar og tilbreytingu í daglegu lífi borgarbúa." Í myndbandi sem birtist fyrir síðustu kosningarnar sagði Jón Gnarr borgarstjóri: ,,Þessi borg gæti svo auðveldlega orðið skemmtileg. Pælið í því."

Pælum aðeins í því. Nú hef ég verið pínu skotinn í Besta flokkinn vegna þess að ég taldi að honum fylgdu ferskir vindar í frekar stöðnuðum stjórnmálum og að fólkið í flokknum væri bæði frumlegt og drífandi. En nú eru að renna á mig tvær grímur.

Nú hefur ljómandi góðri hugmynd verið varpað fram sem myndi falla vel að loforði Besta flokksins um skemmtilegri Reykjavík: Náttúruminjasafn í Perluna. Hugmyndin er svo sem ekki ný en hún hefur fengið endurnýjun lífdaga eftir að Orkuveita Reykjavíkur lýsti því yfir að hún vildi selja húsið. Fimm félög náttúrufræðinga, náttúruverndarsinna og kennara sendu stjórn Orkuveitu Reykjavíkur erindi nýverið þar sem fyrirtækið var hvatt til þess að skoða þessa hugmynd gaumgæfilega.

Nú hefur svar borist frá Haraldi Flosasyni, stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem hann segir meðal annars: ,,Eins og kunnugt er þá hefur á vettvangi stjórnar OR verið mörkuð sú stefna að selja Perluna, líkt og margar aðrar eignir fyrirtækisins sem ekki tengjast kjarnastarfsemi þess. Í þessu gæti verið fólgið tækifæri til að koma ykkar ágætu hugmynd í framkvæmd ef nýir eigendur sjá sér leik á borði og leggja húsið undir starfsemi Náttúruminjasafnsins."

Fulltrú Besta flokksins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur sem sagt hafnað hugmyndinni. Tillögur um að semja við einkafyrirtæki um nýtingu á húsinu eru auðvitað fjarstæðukenndar. Til hvers ætti OR að selja einkaaðila húsið bara til þess að láta kaupa það aftur af einkaaðilanum fyrir opinbert fé? Það gengur bæði gegn almennri skynsemi og hagsmunum skattgreiðenda?

Það eru margir kostir sem fylgja því að nýta Perluna undir náttúruminjasafn. Í fyrsta lagi myndi það spara skattgreiðendum að þurfa að punga út fyrir nýbyggingu undir safnið. Í öðru lagi býður staðsetning hússins og útsýni frá því upp á mikla möguleika til fræðslu um náttúruna. Og í þriðja lagi myndi Perlan loksins öðlast raunverulegt notagildi. Þannig yrði Perlan fróðlegur og skemmtilegur staður fyrir almenning að heimsækja, hún yrði aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn allt árið um kring og hún yrði miðstöð náttúrufræðikennslu.

Eins og fram hefur komið í fréttum ætla þeir sem buðu hæst í Perluna að breyta lóðinni og reisa þar hótel. Perlan, eitt af einkennum Reykjavíkurborgar, yrði þá ekki lengur almenningsrými, heldur frátekið svæði fyrir ferðamenn. Hlutirnir gerast varla mikið ófrumlegri og leiðinlegri.

Ég legg til að borgarfulltrúar Besta flokksins fái sér göngutúr út í portið við Lækjargötu, setjist við styttuna af óþekkta embættismanninum og íhugi vel og vandlega hvers vegna þeir hófu afskipti af stjórnmálum.