7. jan. 2012

Ráðherrar VG á hálum ís

Sérfræðiþekking og vísindaleg vinnubrögð voru ekki í hávegum höfð hjá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar deilan um Kárahnjúkavirkjun stóð sem hæst. Halldór Ásgrímsson sagði þá opinberlega að það væri stefna stjórnvalda að virkjunin yrði byggð og úrskurður Skipulagsstofnunar breytti þar engu um. Skipulagsstofnun hafði úrskurðað að virkjunin yrði ekki reist vegna umhverfisáhrifa og skorts á upplýsingum. Davíð Oddsson sagði um þá ákvörðun: ,,Það er þá gríðarmikil ákvörðun sem ókjörnir fulltrúar þjóðarinnar eru að taka á sínum kontór og mikill má máttur þeirra vera.“ Í kjölfarið var lögum um mat á umhverfisáhrifum breytt þannig að Skipulagsstofnun úrskurðaði ekki í málum, en birti þess í stað álit sitt á framkvæmdum sem hafði engin bindandi áhrif. Þannig afgreiddi þáverandi ríkisstjórn stofnanir sem voru henni ekki sammála, Þjóðhagsstofnun var lögð niður og Skipulagsstofnun gerð áhrifalaus.

Nú hefur Skipulagsstofnun nýverið birt álit sitt á þverun Kjálkafjarðar og Mjóafjarðar í Barðastrandasýslu. Þar segir að framkvæmdirnar muni hafa verulega neikvæð áhrif á landslag á svæði sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lögum um vernd Breiðafjarðar. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra Vinstri-Grænna, segir í viðtali við Stöð 2 að niðurstaða Skipulagsstofnunar raski ekki áformum um þessa vegagerð. Sú ákvörðun veldur mér vonbrigðum og einnig tilraun Ögmundur til að afgreiða umræðuna með þessum orðum: ,,Það er augljóst mál að þegar ráðist er í vegaframkvæmdir þá hefur það áhrif á umhverfið og breytir því á ýmsa lund.“ Sem sagt, vegur er bara vegur. En málið er ekki svona einfalt. Skipulagsstofnun benti á þann kost að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum vegarins með því að hanna hann á vissum kafla fyrir 70 km hámarkshraða í stað 90 km. Þessari tillögu virðist Ögmundur hafna á þeim forsendum að vegir hafi hvort eð er alltaf áhrif á umhverfið. Það getur varla verið ásættanleg að ráðherra úr flokki Vinstri-Grænna afgreiði tillögur sérfræðinga á sviði umhverfismála á svo ódýran hátt.

Annað nýlegt dæmi um sérkennilega afstöðu ráðherra Vinstri-Grænna til sérfræðiþekkingar og vísinda er skipan formanns stjórnar Hafrannsóknarstofnunar. Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra hefur staðfest skipan formannsins þrátt fyrir að sá hinn sami hafi sagt Hafrannsóknarstofnun ógna sjávarútveginum. Það er ósennilegt að þessi formaður leggi mikið á sig við að verja sjálfstæði vísindamanna Hafró og hlutleysi stofnunarinnar. Þessi skipan er því í hrópandi ósamræmi við áherslur þess flokks sem sjávarútvegsráðherra fer fyrir.

Ég legg ekki saman að jöfnu þessar ákvarðanir ráðherra VG og þær ákvarðanir sem teknar voru í aðdraganda þess að Kárahnjúkavirkjun var reist. En í orðum og gerðum Ögmundar og Steingríms gætir engu að síður ákveðinnar vanvirðingar í garð sérfræðinga og vísindamanna. Slíkt á auðvitað að heyra sögunni til í íslenskum stjórnmálum.