22. des. 2011

Álveri þvingað upp á þjóðina

Forstjóri HS Orku sagði í fréttum Rúv að í kjölfar niðurstöðu sænsks gerðardóms þurfi fyrirtækið að sjá Norðuráli fyrir 150 megavöttum í fyrstu tvo áfanga fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Um 70-80 megavött geti fengist með stækkun Reykjanesvirkjunar en afgangurinn komi frá Eldvörpum og Krísuvík. Norðuráli virðist þannig hafa tekist, með aðstoð sænsks gerðardóms, að þvinga HS Orku til að spilla þessum svæðum fyrir enn eitt álverið í andstöðu við hagsmuni útivistarfólks á höfuðborgarsvæðinu og ferðaþjónustu á Reykjanesskaga. Og forsvarsmenn Norðuráls virðast staðráðnir í að þvinga þessu álveri upp á þjóðina þrátt fyrir að það sé í beinni andstöðu við efnahagslega hagsmuni hennar. Þannig hvatti starfshópur iðnaðarráðherra um erlenda fjárfestingu til dæmis nýverið til að ekki yrði sóst sérstaklega eftir frekari erlendri fjárfestingu til nýrra álvera, meðal annars vegna þess hún væri ekki ákjósanlega fyrir íslenskt efnahagslíf vegna einhæfni í atvinnulífinu. En auðvitað er efnahagsleg velferð íslensku þjóðarinnar ekki ofarlega á forgangslista forsvarsmanna Norðuráls, þeir fá borgað fyrir að gæta efnahagslegrar velferðar Century Aluminum.

En hverju er fórnað með virkjunum í Eldvörpum og Krísuvík? Fjölmörg ferðaþjónustufyrirtæki skipuleggja dagsferðir á suðvesturhorni landsins og samkvæmt upplýsingum frá Markaðsstofu ferðamála á Suðurnesjum og landverði komu að jafnaði um eitt þúsund manns á dag í Seltún í sumar. Samkvæmt könnun Markaðsstofu ferðamála á Suðurnesjum starfa þar um 1.600 manns allt árið í ferðaþjónustu og fjölgar í 2.100 yfir sumarið. Það eru 15% af vinnuafli á Suðurnesjum. Hætt er við að framkvæmdir í Eldvörpum og Krísuvík myndu draga verulega úr aðdráttarafli svæðisins, t.d. væri hálendisupplifun í Reykjanesfólkvangi úr sögunni.

Eins og segir í umsögn nátttúruverndarhreyfingarinnar um drög að þingsályktunartillögu um Rammaáætlun þá eru Eldvörp einstök gígaröð sem myndaðist eftir lok síðasta jökulskeiðs. Fara þarf allt austur til Lakagíga til að finna sambærilega gígaröð. Í umsögninni var lagt til að Eldvörp yrðu tekin úr orkunýtingarflokki og sett í svokallaðan biðflokk, meðal annars vegna óvissu um sjálfbærni virkjunarinnar sem stafaði ekki síst af nálægð við Svartsengisvirkjun. Sveifluháls fellur líka í orkunýtingarflokk samkvæmt Rammaáætlun. Náttúruverndarhreyfingin lagði til að svæðið yrði fært í verndarflokk: ,,Ein fallegasta perlan á Reykjanesskaganum er Móhálsadalur milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Ein vinsælasta gönguleið svæðisins, Ketilstígur, liggur upp frá Seltúni og inn á Sveifluhálsinn, fram hjá Arnarvatni og niður í dalinn. … Þetta svæði er afar heppilegt til náttúruskoðunar og útivistar enda býður það upp á stórbrotið landslag. … Krýsuvíkursvæðið er tvímælalaust eitt merkasta hverasvæði landsins.“

Þetta eru svæðin sem Norðurál vill fórna til að afla í mesta lagi fjórðungs þeirrar orku sem álver í Helguvík þarfnast. Að mínum dómi hafa forsvarsmenn Norðuráls nú úr tveimur kostum að velja. Þeir geta haldið áfram baráttu sinni við að þvinga álveri upp á þjóðina, auka efnahagslega áhættu íslenska hagkerfisins og fórna náttúruverðmætum á Reykjanesskaga. En þeir gætu líka sýnt smá manndóm, fallið á sverðið og viðurkennt að kostnaður þeirra við illa undirbúna uppbyggingu álvers í Helguvík er tapað fé.