13. nóv. 2011

Hálfsannleikur forseta kirkjuþings

Forseti kirkjuþings fjallaði um niðurstöður stjórnlagaráðs í ræðu á kirkjuþingi í liðinni viku. Þar sagði hann tillögurnar skapa óviðunandi óvissu fyrir evangelísku lútersku kirkjuna á Íslandi. Brot úr ræðunni er birt á vef kirkjunnar: „Þar er hlaupist undan þeim vanda að kveða á um hvort hér á landi skuli vera þjóðkirkja eða ekki. Það ákvörðunarvald er fengið Alþingi með orðunum: „Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins”.

Þetta er allt satt og rétt sem þarna segir, nema hvað að forseti kirkjuþings velur að fjalla einungis um hluta tillögunnar, þ.e. átta orð af 32. Ef tillagan er skoðuð í heild sinni kemur í ljós að hún felur í sér að þjóðinni verði falið að taka endanlega ákvörðun: ,,Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.“ Stjórnlagaráð leggur því ekki til að Alþingi verði falið þetta vald, heldur þjóðinni.

Það versta við orð forseta kirkjuþings er að hann notar þennan hálfsannleik til að kasta rýrð á allt starf stjórnlagaráðs: ,,Þetta er raunar ekki eina dæmið um ófullnægjandi frágang í hugmyndum um nýja stjórnarskrá“. Ég er ekki í nokkrum vafa um að tillögurnar eru allar hundlélegar ef við förum að fordæmi forseta kirkjuþings og lesum einungis fyrsta fjórðung hverrar tillögu. Og ef út í það er farið þá eru boðorðin tíu líka frekar slöpp lesin á þennan hátt. Þannig hljómar til dæmis fyrsti fjórðungur sjöunda boðorðsins: ,,Þú".

Það er mitt mat að forseti kirkjuþings ætti að vera stjórnlagaráði þakklátur fyrir að vilja veita evangelísku lútersku kirkjunni skjól hjá Alþingi. Alþingi er jú íhaldssöm stofnun sem er ekki líkleg til að gera róttækar breytingar á þessu sviði. Meira að segja hefur íslenski jafnaðarmannaflokkurinn ekki viljað taka afstöðu til þessa máls eins og sýndi sig á landsfundi Samfylkingarinnar í október. Að mínu mati væri farsælast að þjóðin greiddi fyrst atkvæði um það hvort hér skuli vera þjóðkirkja og síðan fengi Alþingi málið til afgreiðslu.

Í slíkri kosningu myndi ég kjósa gegn þjóðkirkjufyrirkomulaginu vegna þess að í mínum huga fyrirgerði evangelíska lúterska kirkjan rétti sínum til að kallast þjóðkirkja á nýársdag 2006. Þá lagðist biskup gegn því að Alþingi veitti forstöðumönnum trúfélaga heimild til vígslu samkynhneigðra para og sagði hjónabandið eiga það inni hjá þjóðinni að því væri ekki kastað á sorphaugana. Eftir það hef ég átt erfitt með að taka mark á kærleiksboðskap evangelísku lútersku kirkjunnar. Eftir áðurnefnd ummæli forseta kirkjuþings er ég líka farinn að efast um boðskap kirkjunnar um sannleikann.