13. okt. 2011

Jarðskjálftar, vatnsvernd, offjárfesting og mengun

Opið bréf til forsvarsmanna Orkuveitu Reykjavíkur.

Undanfarna daga hefur talsvert verið fjallað um fyrirtækið í fjölmiðlum. Í kjölfarið hafa eftirfarandi spurningar vaknað og óska ég eftir svörum við þeim eins fljótt og auðið er:
1. Orkuveita Reykjavíkur (OR) telur að framkvæmdir við fyrirhugaða þjónustumiðstöð við Þríhnúkagíg og starfsemi hennar feli í sér óviðunandi hættu á mengun grunnvatns og vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins. Í umsögn OR segir meðal annars: ,,Höfuðborgarbúar mega ekki missa vatnsból sín og er hætt við að ekki verði aftur snúið í kjölfar mengunarslyss á svæðinu.“ Þó ég þekki ekki möguleg áhrif fyrirhugaðra framkvæmda við Þríhnúka og hafi ekki myndað mér skoðun á þeim þá vil ég þakka OR fyrir sýndan vilja til að gæta fyllstu varúðar í umgengni um vatnsverndarsvæði Reykjavíkur í þessu tilfelli. Það er virðingarvert.
Í ljósi þessarar umsagnar vaknar sú spurning hvort núverandi stjórn OR hafi aðra afstöðu en fyrri stjórn til fyrirhugaðra framkvæmda við nýja Suðvesturlínu um vatnsverndarsvæði Reykjavíkur? Rétt er að minna á að í umsögnum við mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlínu töldu Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar að fyrirhuguð framkvæmd gæti haft áhrif á vatnsból þrátt fyrir öryggiskröfur og mótvægisaðgerðir. Það var þeirra mat að framkvæmdir og rask sem fylgdu uppbyggingu og þjónustu við fyrirhugaðar háspennulínur svo nærri vatnsbólum myndu óhjákvæmilega tefla vatnverndarsvæði höfuðborgarinnar í hættu.
Ég spyr því í ljósi afstöðu OR til framkvæmda við Þríhnúkagíg hvort fyrirtækið hafi sömu afstöðu til fyrirhugaðra framkvæmda við Suðvesturlínu, þ.e. að þær feli í sér óviðunandi hættu á mengun vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins?

2. Niðurdæling á vatni á Hellisheiði hefur valdið miklum fjölda jarðskjálfta sem náð hafa styrkt allt að 3,5 á Richter. Ég spyr eins og bæjarstjórn Hveragerðis gerði nýverið: Gerði OR ráð fyrir þessum afleiðingum niðurdælinga, t.d. í mati á umhverfisáhrifum? Einnig leikur mér forvitni á að vita hver beri fjárhagslega ábyrgð ef skemmdir verða af völdum þessara manngerðu jarðskjálfta, t.d. á húsum eða innanstokksmunum?

3. OR tók nýverið í gagnið nýja 90 megavatta virkjun á Hellisheiði. Hversu mikið mun brennisteinsvetnismengun á höfuðborgarsvæðinu aukast í kjölfarið að mati OR? Telur OR útilokað að langvarandi brennisteinsvetnismengun frá virkjunum fyrirtækisins á Hellisheiði kunni að hafa áhrif á heilsu almennings á höfuðborgarsvæðinu? Telur OR útilokað að langvarandi brennisteinsvetnismengun frá virkjunum fyrirtækisins á Hellisheiði kunni að valda tæringu á málmum, t.d. á fasteignum á höfuðborgarsvæðinu? Telur OR útilokað að langvarandi brennisteinsvetnismengun frá virkjunum fyrirtækisins á Hellisheiði geti dregið úr endingartíma raftækja á höfuðborgarsvæðinu?
Til stendur að reisa að minnsta kosti tvær aðrar virkjanir á vegum OR á Hellisheiði, þ.e. í Hverahlíð og við Gráuhnúka. Hvað mun brennisteinsvetnismengun á höfuðborgarsvæðinu aukast mikið með tilkomu þeirra að mati OR?

4. Fram hefur komið í fréttum að lítil not virðast vera fyrir þá orku sem nýgangsett 90 megavatta virkjun OR á Hellisheiði framleiðir. Hér virðist því vera um offjárfestingu OR að ræða, t.d. í túrbínum. Í ljósi þess að OR hefur hækkað verð á raforku og hita til almennings að undanförnu þá óska ég eftir áliti OR á því hversu mikil áhrif offjárfesting OR á Hellisheiði hefur haft á þróun orkuverðs til almennra notenda.
Kveðja,

Guðmundur Hörður Guðmundsson

(Pistillinn birtist fyrst á dv.is 13.10.2011).