1. okt. 2011

Var hæfasti umsækjandinn ráðinn forstjóri Bankasýslunnar

Í gær var tilkynnt að stjórn Bankasýslu ríkisins hefði ráðið Pál Magnússon í starf framkvæmdastjóra stofnunarinnar. Bankasýslan er ríkisstofnun með sjálfstæða stjórn sem heyrir undir fjármálaráðherra. Formaður stjórnarinnar er Þorsteinn Þorsteinsson sem vann áður hjá Búnaðarbanka Íslands.

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins árið 2000 valdi Valgerður Sverrisdóttir, þá viðskiptaráðherra, Þorstein til að taka að sér forystu viðræðunefndar bankans í sameiningarviðræðum sem stóðu þá yfir við Landsbankann. Þorsteinn gegndi starfi yfirmanns verðbréfasviðs Búnaðarbankans. Þetta gekk ekki eftir vegna andstöðu bankaráðs Búnaðarbankans við afskipti viðskiptaráðherra af málinu. Þessi litla frétt bendir til að það hafi ríkt sérstakt traust milli Valgerðar og Þorsteins.

Pólitískur aðstoðarmaður Valgerðar á þessum tíma var Páll Magnússon, sá hinn sami og Þorsteinn Þorsteinsson hefur nú valið til að gegna starfi forstjóra Bankasýslu ríkisins. Spurningin hlýtur að vakna hvort Páll hafi notið þessara tengsla þegar hann sótti um og fékk stöðu forstjóra Bankasýslu ríkisins. Það hlýtur líka að vera eðlilegt að spyrja hvort að einstaklingur sem gegndi starfi aðstoðarmanns viðskiptaráðherra á þeim tíma sem grunnurinn að efnahagslegu hruni Íslands var lagður skuli nú vera ráðinn forstjóri stofnunar sem fer með eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

En hver veit, kannski var Páll hæfasti umsækjandinn af þeim fjórum sem sóttust eftir starfinu. Ég veit ekki hver starfsreynsla og menntun hinna þriggja er. En það tekur ekki langan tíma að finna afrekaskrá Páls Magnússonar sem hann birti á netinu þegar hann bauð sig fram til formanns Framsóknarflokksins árið 2009. Samkvæmt henni er Páll með BA próf í guðfræði og meistarapróf í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Starfsreynsla Páls er bundin við opinber störf tengd Framsóknarflokknum.

Ég ætla ekki að fella neinn dóm en vona að fjölmiðlar skoði málið og gangi úr skugga um að hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn í þetta mikilvæga starf.