1. sep. 2011

Virkjanafréttir 8 - Verndarfréttir 3

Í gær var vika liðin frá því að iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra kynntu drög að þingsályktunartillögu um vernd og nýtingu náttúrusvæða (rammaáætlun). Af því tilefni gerði ég könnun á því hvernig fjölmiðlar hafa fjallað um tillöguna. Ég skoðaði aðalsjónvarpsfréttatíma Rúv og Stöðvar 2 og renndi í gegnum Fréttablaðið og Morgunblaðið.

Fréttastofa Stöðvar 2 sagði flestar fréttir af tillögunum, eða fimm. Í frétt kvöldið sem tillögurnar voru kynntar var sagt frá niðurstöðunum og m.a. rætt við fulltrúa náttúruverndarsamtaka. Ef ég flokka hverja frétt í verndarfrétt eða virkjanafrétt eftir áherslum sem koma fram í fréttinni, þá var staðan þarna 1-0 fyrir verndarfréttir. Daginn eftir sagði Stöð 2 frá meintu tjóni Orkuveitu Reykjavíkur vegna þess að Bitra var sett í verndarflokk. Staðan orðin 1-1. Mánudagurinn var á svipuðum nótum með frétt af meintu tjóni Landsvirkjunar vegna þess að Norðlingaölduveita var sett í verndarflokk og á þriðjudaginn var fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins fenginn í viðtal til að segja þjóðinni hvað Norðlingaölduveita hefði lítil umhverfisáhrif. Þarna var fréttastaðan orðin 3-1 fyrir virkjanafréttir. Síðasta frétt fréttastofu Stöðvar 2 af tillögunum var síðan flutt á miðvikudag, en þá fékk þjóðin að fræðast um viðbrögð formanns landeigenda í Reykjahlíð sem var ekki sáttur við að Gjástykki skyldi falla í verndarflokk og sagði að svæðið yrði ekki friðlýst án hárra bóta. Lokastaða 4-1 virkjanafréttum í vil.

Fréttastofa Rúv sagði fjórar fréttir af tillögunum og það var greinilegt að á þeim bænum var dagskipunin að gæta hlutleysis. Á fyrsta degi voru tekin viðtöl við fulltrúa beggja fylkinga. Steindautt jafntefli. Sömu sögu var að segja á laugardag og sunnudag. Það var svo á mánudagskvöldið sem Rúv virðist hafa farið út af sporinu og fulltrúi Samorku fékk að lesa þjóðinni pistilinn án þess að mótvægis væri gætt. Lokastaðan hjá Rúv var því 1-0 virkjanafréttum í vil.

Fréttablaðið sagði einungis tvær fréttir af tillögunum. Í laugardagsblaði var niðurstaðan kynnt og rætt við fulltrúa náttúruverndarsamtaka. Á mánudag var síðan rætt við Orra Vigfússon sem óttast að lax- og sjóbirtingsstofnar hrynji ef virkjað verður neðst í Þjórsá. Óvænt úrslit hjá Fréttablaðinu: 2-0 fyrir verndarfréttir.

Morgunblaðið hóf sína fjögurra daga umfjöllun á jantefli í laugardagsblaðinu þar sem fjallað var um málið frá öllum hliðum. Næstu daga komust virkjanafréttir á sigurbraut með fréttum um afstöðu orkufyritækja og virkjana sinnaðra þingmanna og sveitarstjórnarmanna. Endanleg úrslit á síðum Morgunblaðsins voru 3-0 virkjanafréttum í hag.

Rúv fór næst því að gæta jafnræðis í fréttum af tillögunum en ritstjórn Morgunblaðsins og fréttastofa Stöðvar 2 virðast hafa lagt minni áherslu á hlutleysi í sinni umfjöllun, þar fengu skoðanir virkjanasinna mun meira vægi en náttúruverndarsinna. Fréttablaðið kom hins vegar á óvart með því að fjalla ekkert um afstöðu virkjanasinna.

Fréttavikunni lauk þannig með 8 virkjanafréttum gegn 3 verndarfréttum.