18. sep. 2011

Fyrirlestur Al Gore og Sigúrdar Ærark

Það kannast líklega margir við að hafa daufheyrst við brunabjöllum. Við tökum ekki alltaf sjálfkrafa til fótanna þegar slíkar bjöllur gjalla. En við erum öllu líklegri til að bregðast við ef slökkviliðsmaður lægi á glugga og segði okkur að við hefðum mjög skamman tíma til að forða okkur út úr brennandi húsi. Og öll myndum við bregðast við ef við sjáum reyk, hvað þá eld.

Sömu sögu er ekki að segja af viðbrögðum við loftslagshlýnun, en á þeim vettvangi höfum við gengið í gegnum þessi þrjú stig viðvörunar. Skýrslur IPCC hafa verið brunabjöllur í gegnum tíðina og vísindamenn hafi nú legið á glugga um nokkurt skeið og varað okkur við hættunni. Upp á síðkastið höfum við svo bæði séð eld og reyk í formi þurrka, flóða, skógarelda, hækkunar sjávarborðs o.s.frv. En samt sitjum við sem fastast og virðumst síður en svo líkleg til að bregðast við aðsteðjandi vá.

Al Gore skipulagði vefútsendingu í liðinni viku sem var ætlað að vekja heimsbyggðina til vitundar um alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga og hvetja til aðgerða til lausna á vandanum. Útsendingin hófst á fyrirlestri í Mexíkó og svo var haldið vestur á bóginn og sami fyrirlestur fluttur í hverju tímabelti þar til Al Gore flutti síðasta fyrirlesturinn í New York sólarhring síðar. Ísland var meðal viðkomustaða og það var Sigurður Eyberg, verkefnastjóri Garðarshólma, sem flutti fyrirlesturinn á íslensku frammi fyrir heimsbyggðinni (eða Sigúdurd Ærark eins og hann var kynntur af Renee Zellweger).

Það er skemmst frá því að segja að Sigúrdurd Ærark stóð sig með stakri prýði, enda ekki við öðru að búast af manni sem er bæði umhverfisfræðingurinn sem fyrstur reiknaði vistspor Íslendinga og söngvara Deep Jimi&the Zep Creams, bestu hljómsveitar íslenkrar tónlistarsögu. Hér er hægt að skoða upptöku af fyrirlestrinum. Ballið byrjar á 6:15.


Video streaming by Ustream