24. ágú. 2011

Tölurnar á bak við tár orkufyrirtækjanna


Samkvæmt drögum að þingsályktunartillögu um rammaáætlun er gert ráð fyrir að virkjanir á svæðum sem falla í orkunýtingarflokk geti framleitt 13.234 gígawattstundir. Fulltrúar orkufyrirtækjanna koma nú fram hver á fætur öðrum og lýsa yfir óánægju með niðurstöðuna þar sem of fá svæði hafi verið sett í orkunýtingarflokk (Sjá t.d. hér, hér og hér). Þeir fá orkuþörf sinni ekki fullnægt. En lítum á tölurnar á bak við tárin.
Hvað eru 13.234 gígawattstundir? Kárahnjúkavirkjun, hæsta grjótstífla Evrópu og ein sú stærsta í heiminum, framleiðir 4.600 gígawattstundir á ári. Samkvæmt tillögum iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra verður því hægt að reisa virkjanir á næstu árum sem jafnast á við rétt tæpar þrjár Kárahnjúkavirkjanir!
Orkuframleiðsla hér á landi var 16.900 gígawattstundir árið 2009 og hafði þá tvöfaldast á einungis fimm árum. Verði tillaga að rammaáætlun samþykkt óbreytt geta orkufyrirtækin næstum tvöfaldað orkuframleiðslu aftur á nokkrum árum!
Almenn notkun raforku eykst um 50 gígawattstundir á ári. Þannig að sú aukning á raforkuframleiðslu sem tillagan gerir ráð fyrir dugar fyrir almennri aukningu næstu 265 árin!  
Ef þetta verður niðurstaðan þá mega orkufyrirtækin prísa sig sæl. Samt senda þau fulltrúa sína út á fjölmiðlaakurinn til að kvarta og kveina. Það ber ekki vott um mikinn sáttahug.