17. jún. 2011

Iðnaðarráðherra sýni vilja í verki

Iðnaðarráðherra ítrekar fyrri yfirlýsingar sínar í grein í Fréttablaðinu í gær um að hann telji óheppilegt að Orkustofnun hafi veitt leyfi fyrir sitt leyti til jarðhitarannsókna við Grændal á sama tíma og unnið er að sátt um virkjanamál á vettvangi Rammaáætlunar.

Það er ekki sterkt að orði kveðið í ljósi þess að ákvörðun Orkustofnunar gengur þvert gegn yfirlýsingu iðnaðarráðuneytisins frá því í maí á liðnu ári: „Engin stefnubreyting hefur orðið í iðnaðarráðuneytinu frá því að ráðherra lýsti yfir því í júlí 2007 að rannsóknarleyfi yrðu ekki gefin út á óröskuðum svæðum fyrr en niðurstaða Rammaáætlunar um verndun og nýtingu lægi fyrir.“ Að stofnun ráðuneytisins vinni þvert gegn stefnu ríkisstjórnarinnar og tefli sátt um virkjanamál í tvísýnu er í mínum huga annað og meira en óheppilegt.

Fram kemur í grein ráðherra að Orkustofnun telji sér skylt að veita leyfi til rannsókna út frá núgildandi lögum. Þá vaknar spurningin hvað fólst í áðurnefndri yfirlýsingu iðnaðarráðuneytisins. Gekk ráðuneytið ekki úr skugga um að Orkustofnun gæti framfylgt skýrri stefnu ráðuneytisins um að rannsóknarleyfi yrðu ekki gefin út á óröskuðum svæðum? Og hvers vegna var lögum eða reglugerðum ekki breytt til að framfylgja mætti stefnunni? Þessu þarf iðnaðarráðherra að svara.

Iðnaðarráðherra vísar í grein sinni til yfirlýsingar RARIK um að rannsóknarleyfi í Grændal verði ekki nýtt fyrr en Rammaáætlun liggi fyrir. Það kallar ráðherrann framlag RARIK til sáttar í málaflokknum. Það ber ekki vott um metnaðarfulla stefnu í náttúruvernd ef það á að vera komið undir stefnu orkufyrirtækja hverju sinni hvort vernda eigi svæði sem hafa verndargildi á heimsmælikvarða.

Grein iðnaðarráðherra er svar við grein minni sem birtist á netmiðlinum Vísi 15. júní síðastliðinn. Í lokaorðum ráðherra segist hann deila áhuga mínum á að Rammaáætlun verði leiðarljós inn í framtíðina sem skapi heildarsýn og sátt í viðkvæmum málaflokki. Ég efast ekki um að áhugi iðnaðarráðherra sé einlægur. Þess vegna verður hann að sýna vilja í verki, til dæmis með því að framfylgja eigin yfirlýsingum og koma í veg fyrir að Orkustofnun veiti fleiri rannsóknarleyfi á óröskuðum svæðum þangað til niðurstaða Rammaáætlunar liggur fyrir.

(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. júní 2011).