9. maí 2011

Stjórnlagaráð þarf að gera breytingar á tillögum um umhverfisverndarákvæði

Tillögur stjórnlaganefndar um umhverfisverndarákvæði í stjórnarskrá eru full íhaldssamar fyrir minn smekk. Mér sýnist tillagan vera að eftirfarandi texti bætist við mannréttindakafla stjórnarskrárinnar:

,,Allir eiga rétt á heilnæmu umhverfi og náttúru þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Almenningi er heimilt að fara um landið í lögmætum tilgangi, en skal ganga vel um og virða náttúruna.
Tryggður skal í lögum réttur almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það svo og kostur á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið."

Með þessu hefur stjórnlaganefndin líklega gengið eins skammt og hún gat, því það kom varla til greina að gera ekki tillögu um sérstakt umhverfisverndarákvæði í stjórnarskrá. Ég geri eftirfarandi athugasemdir við tillögur nefndarinnar.

Í fyrsta lagi er þetta mjög mannlæg nálgun. Það segi ég vegna orðalagsins og vegna þess að umhverfisverndarákvæðið er haft í mannréttindakaflanum. Nálgunin er sú að náttúran sé til fyrir manninn, hvort sem það er til nýtingar eða verndar, en hún eigi sér ekki sjálfstæðan tilverurétt. Ekvadorar sömdu nýja stjórnarskrá árið 2008 þar sem fjallað er um réttindi náttúrunnar í sérstökum kafla. Bólivía hefur tekið svipuð skref og hugmyndin hefur verið rædd á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Í öðru lagi furða ég mig á þessu orðalagi: ,,Tryggður skal í lögum réttur almennings til upplýsinga um ástand umhverfis." Þetta er að mínu mati orðinn svo sjálfsagður réttur nú þegar, að hann þarf varla staðfestingar við í stjórnarskrá. Eðlilegra væri að ákvæðið fjallaði um frumkvæðisskyldu stjórnvalda til að veita upplýsingar vegna mengunar eða mengunarhættu sem gæti hugsanlega haft áhrif á líf og heilsu. Nýlegt dæmi um díoxínmengun frá sorpbrennslustöðinni Funa sýnir svart á hvítu að skyldan þarf að hvíla hjá stjórnvöldum.

Í þriðja lagi er ekki fjallað um kynslóðavíddina í þessari tillögu, þ.e. að við nýtingu auðlinda þurfi að gæta að rétti komandi kynslóða. Hugmyndin um rétt komandi kynslóða er eitt megin stef sjálfbærrar þróunar. Þess vegna þætti mér furðu sæta ef ekkert yrði fjallað um þann rétt í umhverfisverndarákvæði stjórnarskrár.

Í fjórða lagi er ekkert fjallað um mikilvægar meginreglur umhverfisréttarins í tillögunum, t.d. mengunarbótaregluna og varúðarregluna. Það er næstum því sambærilegt við það að fjalla ekki um tjáningarfrelsi eða trúfrelsi í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

Í fimmta lagi er fjallað um lýðræðislegar aðferðir á mjög íhaldssaman hátt. Þar segir að tryggja skuli í lögum rétt til upplýsinga um áhrif framkvæmda og kost á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif  hafa á umhverfið. Þetta er uppskrift að óbreyttu ástandi þar sem fyrirtæki vinna umhverfismat og sveitarfélög skipulög sem almenningur fær að gera athugasemdir við. Þannig yrði áhrifaleysi almennings í umhverfismálum viðhaldið. Það hefði verið framsæknara að leggja til að kjósendur gætu farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslur um skipulag sveitarfélaga eða fyrirhugaðar virkjanir yfir ákveðinni stærð. Á þessu sviði er ekki nóg að almenningur fái að knýja fram þjóðaratkvæði um lagafrumvörp, eins og núverandi tillögur gera ráð fyrir, þar sem Alþingi fjallar ekki lengur um einstaka virkjanir. 

Í sjötta lagi gerir nefndin ekki tillögu um ákvæði um vernd ósnortinna víðerna. Ég skora á stjórnlagaráðið að leggja til nokkurskonar forever wild ákvæði, sem kvæði á um bann við frekari skerðingu víðerna, annað hvort á landinu öllu eða á hálendinu. Það mætti rökstyðja slíka tillögu með ýmsum rökum, jafnt fagurfræðilegum sem efnahagslegum.