8. maí 2011

Áframhaldandi leynd yfir greiðslukortanotkun ráðherra

Forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp að breytingum á upplýsingalögum. Af því tilefni rifjaðist upp fyrir mér að í mars 2007 óskuðu blaðamenn Fréttablaðsins eftir upplýsingum um notkun ráðherra á greiðslukortum ráðuneytanna árið 2006. Sjálfsagt mál hefði maður ætlað í opnu lýðræðisríki, enda um notkun á opinberu fé að ræða. Nei, öll ráðuneytin synjuðu þessari ósk Fréttablaðsins. Árni Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, brást hinn versti við fyrirspurn blaðsins og lét hafa eftir sér á síðum þess: „Þetta er bara ómerkilegt, subbulegt mál þar sem verið er að reyna að gera heiðarlegt fólk að skúrkum algjörlega að ástæðulausu.“ Ósk um upplýsingar um notkun ráðherra á peningum skattgreiðenda var orðin ómerkilegur subbuskapur.

Fréttablaðið sætti sig ekki við leyndarhyggju og leitaði á náðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Nefndin staðfesti ákvörðun ráðuneytanna á þeim grundvelli að yfirlit greiðslukorta væru bókhaldsgögn sem féllu ekki undir 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga um gögn sem almenningur ætti rétt til aðgangs að. Einnig var vísað til þess að beiðni Fréttablaðsins fæli í sér kröfu um að teknar yrðu saman upplýsingar eða útbúin ný gögn, en það samræmdist ekki 1. mgr. 3. gr. laga sem segði að stjórnvöldum væri skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum en ekki að útbúa ný skjöl. Þannig beittu ráðuneytin ákvæðum upplýsingalaganna til að sveigja hjá markmiði sömu laga um opna og lýðræðislega umræðu.

Núverandi ríkisstjórn var kosin til að breyta leikreglum, ekki síst ólögum sem koma í veg fyrir að almenningur fái upplýsingar um notkun almannafjár. Því veldur frumvarp forsætisráðherra til breytinga á upplýsingalögum mér vonbrigðum. Þar virðast fyrrnefnd ákvæði, sem ráðuneytin notuðu til að koma sér undan því að veita umræddar upplýsingar, standa óbreytt. Stjórnvöld geta þá synjað fjölmiðlum og almenningi um upplýsingar um notkun ráðherra á greiðslukortum hins opinbera. Fleira má tína til sem dæmi um íhaldssemi sem einkennir frumvarpið. Þannig sýnist mér forsætisráðuneytið hafi orðið við óskum annarra ráðuneyta og orkufyrirtækja um aukna takmörkun á aðgangi almennings að upplýsingum en tekið athugasemdum Blaðamannafélagsins og skjalavarða um of miklar takmarkanir fálega.

Þetta íhaldssama og metnaðarlitla frumvarp er til umfjöllunar á Alþingi. Vonandi sjá þingmenn til þess að frumvarpinu verði breytt þannig að fjölmiðlar geti aflað mikilvægra upplýsinga, þar á meðal þeirra sem hér hefur verið fjallað um.

(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. maí 2011).