4. apr. 2011

Meirihluti þjóðarinnar er andvígur stóriðjustefnunni

Í nýlegri könnun Miðlunar kom í ljós að einungis 13% aðspurðra töldu stóriðju vera brýnasta verkefnið í atvinnumálum þjóðarinnar. Flestir, eða 30,8%, nefndu uppbyggingu á innlendum iðnað, tæpur fimmtungur nefndi stuðning við nýsköpunarverkefni og 14,7% nefndu samkomulag um starfsumhverfi sjávarútvegsins. Þetta er í takt við könnun á viðhorfi forsvarsmanna stærri fyrirtækja hér á landi sem ég bloggaði nýverið um. Í henni sögðust einungis 4,1% telja að mestu tækifærin til verðmætasköpunar fælust í áliðnaði og stóriðju og 2,1% nefndu virkjanir.

Fyrir nokkru síðan skoðaði ég niðurstöður kannana sem ég fann á afstöðu þjóðarinnar til náttúruverndar, stóriðju og virkjana. Þetta er nokkur dæmi:
  • 65% reyndust andvíg byggingu Norðlingaölduveitu samkvæmt könnun Gallup árið 2006 og einungis fimmtungur var henni hlynntur.
  • 73% vildu að stjórnmálaflokkarnir leggðu meiri áherslu á náttúruvernd og umhverfismál samkvæmt könnun Gallup 2007.  
  • Flestir meðal almennings, eða 62,5%, töldu að umhverfismál yrðu annað af helstu viðfangsefnum stjórnmálanna árið 2050 samkvæmt könnun Gallup sem var gerð fyrir Samtök atvinnulífsins árið 2007. Meðal svonefndra áhrifavalda svöruðu 64% á þennan hátt. Þá var spurt fyrir hvað fólk teldi að Ísland yrði einkum þekkt um miðja þessa öld. Flestir, eða 28% almennings og 31,7% áhrifavalda, nefndu náttúru. 
  • 78% töldu að íslensk stjórnvöld gerðu ekki nógu mikið til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda samkvæmt könnun sem Gallup gerði árið 2007. 
  • 57% studdu ekki frekari virkjanir fyrir orkufrekan iðnað samkvæmt könnun Fréttablaðsins 2008.
  • 41,6% svarenda voru andvígir álveri í Helguvík í könnun Gallup árið 2008 en 36% hlynntir.
  • 42% sögðust andvíg frekari uppbyggingu álvera hér á landi í könnun sem Gallup gerði 2008 en 38% voru fylgjandi.
Í ljósi þessa má ætla að meirihluti þjóðarinnar sé andvígur því að fylgja stóriðjustefnunni til að komast upp úr kreppunni. Samt sem áður krefjast forystumenn Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands þess að ríkisstjórnin blási lífi í stefnuna með uppbyggingu tveggja nýrra álvera og umdeildra virkjana. Hvaða lýðræðislega umboð hafa þessir menn til þess og hvers vegna fá þeir að blanda slíku deilumáli inn í gerð kjarasamninga?