13. apr. 2011

Grænu málin og frammistaða ríkisstjórnar í kjaraviðræðum

Fréttir af kjaraviðræðum eru að mestu hefðbundnar þessa dagana. Samtök þess atvinnulífs sem setti hér allt á kúpuna fyrir nokkrum misserum koma fram með kröfur um allt fyrir ekkert. Þau heimta niðurstöðu í Icesavekosningu, ókeypis kvóta út í hið óendanlega og að almannafé verði varið í óarðbær verkefni til að halda ofvöxnum verktakabransa fasteignabólunnar gangandi.Og þá kannski, bara kannski, fær almenningur örfáa þúsundkalla í vasann sem atvinnurekendur hirða svo fljótt aftur með verðhækkunum og verðtryggingu.

Ég veit hins vegar ekki hvað ég á að segja um frammistöðu ríkisstjórnarinnar. Þau eru jákvæð teiknin á forsíðu Fréttablaðsins í dag, en þar er haft eftir Gylfi Arnbjörnssyni, forseti ASÍ, að ríkisstjórnin ætli ekki að örva hagvöxt með því að ,,tryggja" fjárfestingar. Segir Gylfi að þar komi til flókin og viðkvæm álitaefni innan þingflokka um umhverfismál. Ríkisstjórnin fær hrós frá mér ef satt reynist að hún ætli hvorki að fórna náttúruverðmætum né almannafé í til að fá þá fóstrbæður Gylfa og Vilhjálm til að skrifa undir lélega kjarasamninga. Ríkisstjórnin hefur vonandi lært sína lexíu af gerð stöðugleikasáttmálans, þar sem grunlausir embættismenn og gráðugir ,,aðilar" vinnumarkaðarins töluðu um álver í Helguvík eins og þar væri allt til reiðu og það ætti bara eftir að bjóða í innflutningspartýið.  Ég hef áður rakið þá sorgarsögu hér á blogginu.

Neikvæðu teiknin eru líka til staðar. Mínar heimildir herma að ,,grænliðarnir" innan verkalýðshreyfingarinnar hafi náð að koma þessari setningu inn í drög að samningi um aðgerðir stjórnvalda, þrátt fyrir litla hrifningu Samtaka atvinnulífsins: ,,Stjórnvöld munu auka getu Nýsköpunarsjóðs til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum og gera Tækniþróunarsjóði kleift að aðstoða sprotafyrirtæki í hugbúnaðar- og hátækni sem skili sér í auknum útflutningi." Þetta fellur vel að hugmyndum um græna hagkerfið sem ég held að ríkisstjórnin stefni að, enda er nýsköpunar víða getið í  stjórnarsáttmálanum. Samt sem áður strokaði ríkisstjórnin þessa setningu út úr þeim drögum sem hún fékk í hendurnar! Það eru mikil vonbrigði. En hvað veldur? Kannski hefur ríkisstjórnin ekki efni á þessu, eða þá að hana skortir sannfæringu fyrir eigin stefnuyfirlýsingu. En hvort sem er þá krefst þetta skýringa af hálfu ríkisstjórnarinnar.