15. apr. 2011

Allir með Strætó nema Ögmundur og verkalýðshreyfingin

Almenningur hefur þegar brugðist við miklum verðhækkunum á olíu með því að draga úr akstri og hoppa á hjólið eða upp í strætó. Samkvæmt könnun varð viðsnúningur á viðhorfi almennings frá 2008 til 2010, þannig að nú vilja flestir bæta almenningssamgöngur, minnka umferð einkabíla og bæta hjóla- og göngustíga.

Þess vegna hefur verið sorglegt að horfa upp á stjórnvöld draga lappirnar í þessum efnum. Ég gladdist því innilega í fyrradag þegar facebook tók að fyllast af fréttum um að nú ætti að verja milljarði í almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Við nánari athugun kom í ljós að Ögmundur innanríkisráðherra hafði flutt ræðu á ráðstefnu þar sem hann tilkynnti að uppi væri hugmyndir um að ríkið leggði fram einn milljarð króna á ári í tíu ár til að styrkja almenningssamgöngur á suðvesturhorni landsins. Svo bætti hann við að ætlunin væri að fá sveitarfélög til að leggja fram fjármagn á móti!

Það er vandræðalegt fyrir ríkisstjórn græningja og jafnaðarmanna að svona stefnumál, sem sameinar kjarabætur og umhverfisvernd, sé enn á hugmyndastigi, nú þegar kjörtímabilið er hálfnað. Og hvað þá þegar ráðherrar bæta flóttaleiðum við tillöguna, eins og þeirri að gjaldþrota sveitarfélög eigi að taka þátt í útgjöldum. Það er löngu kominn tími á aðgerðir í þessum efnum og þess vegna veldur yfirlýsing innanríkisráðherra mér vonbrigðum. Hún hefði átt að vera um ákvörðun, ekki hugmyndir.

Þá að þætti verkalýðshreyfingarinnar. Í ljósi þess að samgöngur eru annar stærsti útgjaldaliður heimilanna þá skil ég ekki hvers vegna verkalýðshreyfingin hefur ekki krafist þess af stjórnvöldum að almenningssamgöngur verði efldar. Jú, reyndar skil ég það alveg. Kjarabætur almennings eru bara ekki efst á forgangslista verkalýðsforystunnar. Ef svo væri þá myndi hún ekki gera áframhald stóriðjustefnu að forgangskröfu í kjaraviðræðum. Þeirrar stóriðjustefnu sem hefur leitt til mikilla hækkana á orkuverði og þar af leiðandi kjaraskerðingar fyrir launþega. En hún krefst áframhaldandi stóriðjustefnu til að fjármálastofnanir verkalýðsforingjanna geti ávaxtað peningana sína. Þeim virðist nefnilega ekki duga að okra á launþegum með verðtryggðum lánum til að halda lífeyrissjóðunum á floti, þeir þurfa líka að blóðmjólka opinber fyrirtæki með reglulegu millibili. Og þess vegna krefst verkalýðsforystan ekki bættra almenningssamgangna - hún er upptekin við að reka banka.