14. mar. 2011

Stóriðjusinni hótar skemmdarverkum

Einhverra hluta vegna telja sumir það eðlilegasta hlut í heimi að flokka náttúruverndarfólk sem öfgahóp. Fyrir stuttu síðan hlustaði ég t.d. á tvær þingkonur Sjálfstæðisflokksins tala um virkjana- og stóriðjusinna í þingflokki Samfylkingarinnar sem hófstillta arm flokksins. Hinir, sem vilja stíga varlega til jarðar í virkjanamálum, eru þá líklega öfgasinnaði armurinn. Þannig er þessu öllu snúið á hvolf. Ég sé að minnsta kosti ekki hófsemdina í því að virkja allt sem hægt er að virkja, alveg óháð því hversu miklum náttúruverðmætum er fórnað og óháð verðinu sem fæst fyrir orkuna. Þetta ,,hófsemdarfólk" virðist ekki sjá áhættuna sem fylgir því að selja um 90% raforkuframleiðslunnar til álvera, fórna víðernum og skuldsetja enn frekar orkufyrirtæki í almannaeigu. Fulltrúar ,,hófsemdarfólksins" á Alþingi eru svo hófsamir að þeir leggja fram þingsályktunartillögu um að Landsvirkjun beri að selja álverum jarðvarmaorku, sem helstu sérfræðingar telja óskynsamlegt að gera.

Morgunblaðið birti um helgina viðtal við formann bæjarráðs Norðurþings, fulltrúa ,,hófsemdarfólksins", þar sem þetta var haft eftir honum: ,,Eitt er þó klárt, reyni menn að nýta orkuna án þess að þessir hagsmunir okkar séu tryggðir, þá munu menn upplifa nýja Laxárdeilu. Þar sem hefðbundnum baráttuaðferðum Þingeyinga verður beitt af fullri hörku!" Ég geri nú ráð fyrir að þessi orð hafi fallið í hálfkæringi, en þau eru samt lýsandi fyrir það hvað hófsemdarfólkinu leyfist, sem náttúruverndarfólki myndi ekki leyfast. Náttúruverndarfólk sem svona talaði yrði líklega beitt forvirkum rannsóknarheimildum, Mark Kennedy yrði laumað í raðir þess og Kristján Már Unnarsson og aðrir ,,hófsamir" fjölmiðlamenn myndu gera magnþrungnar fréttir um hótanir öfgafólksins.

Það er kominn tími til að kalla hlutina réttum nöfnum. Stóriðju- og virkjanasinnar sem vilja auka skuldir orkufyrirtækja, fórna náttúruverðmætum og setja öll eggin í álkörfuna, þeir eru öfgafólkið. Náttúruverndarfólkið sem vill draga úr skuldsetningu fyrirtækja í almannaeigu, vernda sífellt verðmætari náttúruperlur og víðerni, og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi, það er hófsemdarfólkið.