2. mar. 2011

Agnes Bragadóttir kemur upp um óvandaða stjórnsýslu

Agnes Bragadóttir skrifaði ágæta grein um Helguvíkurævintýrið í sunnudagsmoggann. Hún fjallar um bágan fjárhag Magma, vandkvæði við orkuöflun fyrir álver og hættuna á að orkufyrirtæki þurfi að greiða Norðuráli háar skaðabætur. Ég mæli með greininni fyrir áhugafólk um orkumál og óvandaða stjórnsýslu.

Allt bendir þetta til þess að stjórnmálamenn og stjórnendur fyrirtækja í almannaeigu hafi farið heldur geyst í málinu. Agnes segist hafa heimildir fyrir því innan Orkuveitu Reykjavíkur að fyrirtækið vilji losna undan orkusölusamningi við Norðurál vegna þess að stjórnendur OR telji að fyrirtækið hefði lítið sem ekkert upp úr viðskiptunum! En orkufyritækin vilji ekki viðurkenna staðreyndir og rifta samningum af ótta við skaðabótakröfur. Ef þetta er rétt hjá heimildarmanni Agnesar þá fagna ég því að núverandi stjórnendur OR séu að gæta hagsmuna almennings og ani ekki út í óhagkvæmar virkjanaframkvæmdir á kostnað skattgreiðenda. Þeir bera mikla ábyrgð stjórnmálamennirnir sem mæla með því að OR taki þátt í þessu ævintýri, alveg óháð arðsemi, bara til að halda lífi í stóriðjustefnunni.

Viðmælandi Agnesar úr orkugeiranum segir að mörg mismunandi orkuver þurfi að koma til, til þess að fullnægja orkuþörf Norðuráls í Helguvík og það sé bara eitt slíkt í framkvæmd. Því sé ljóst að álver Norðuráls í Helguvík hefji ekki starfsemi á næstu árum. Ég held að flestir séu loksins farnir að átta sig á þessari stöðu, meira að segja þingmenn Framsóknarflokksins. Þannig er haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, þingmanni Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi í Morgunblaðinu í gær: ,,Frá því að framkvæmdir hófust í Helguvík hefur skort á grunnundirstöðurnar í umræðunni. Ég hef haft það á tilfinningunni í langan tíma að það sé ekki of mikil bjartsýni hjá einstaka aðilum gagnvart þessu verkefni og að raunveruleikinn sé sá að það séu mörg ljón á veginum. Þeir sem fylgja málinu hvað fastast eftir telja það helstu von í atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Ég hef jafnvel talið að það væri raunhæfara að setja meiri kraft í smærri verkefni. Það er meira á þeim að byggja, líkt og kísilverksmiðjan vitnar um."

Framsóknarflokkurinn áttar sig, VG áttar sig - hvað með Samfylkinguna? Að lokum óska ég Reyknesingum og nærsveitamönnum til hamingju með kísilverksmiðjuna.