17. feb. 2011

Mikill áhugi á Skráargatinu

Fyrir tæpum mánuði sat ég fund hjá Neytendasamtökunum þar sem við ræddum meðal annars um hollustumerkið Skráargatið. Í kjölfar fundarins ákváðum við að reyna að vekja athygli á merkinu og hvetja stjórnvöld, matvælaframleiðendur og kaupmenn til að innleiða það hér á landi. Eins og sannir byltingarmenn byrjuðum við auðvitað á því að stofna facebook síðu sem ég hvet alla til að skrá sig á. Neytendasamtökin sendu síðan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra erindi í fjórða skipti þar sem farið var fram á afstöðu stjórnvalda til málsins.
Þetta hefur skilað þeim árangri að Skráargatið hefur verið til umfjöllunar í Síðdegisútvarpi Rásar 2, sjónvarpsfréttum Rúv, DV og á Visir.is. Í fyrradag gerðist það svo að þingmenn allra flokka lögðu fram þingsályktunartillögu um Skráargatið og í gær bárust fréttir af því að Matvælastofnun ætli á næstu vikum að fjalla um möguleikann á því að taka upp Skráargatið.
Það er greinileg mikill áhugi fyrir Skráargatinu og vonandi verður merkið komið á íslenskar matvörur innan skamms til að auðvelda neytendum að kaupa hollan mat.