12. feb. 2011

Hvers vegna var Ingimar Karl rekinn af Stöð 2?

Ég vann með Ingimari Karli Helgasyni á fréttastofu Rúv fyrir nokkrum árum. Hann var góður vinnufélagi, áhugasamur, duglegur, vel að sér og síðast en ekki síst gagnrýninn.

Nú hefur hann verið rekinn fyrirvaralaust af fréttastofu Stöðvar 2 og vinnur ekki uppsagnarfrest. Þá hefði maður nú haldið að eitthvað alvarlegt lægi að baki, en einu ástæðurnar sem hafa verið gefnar upp eru samskiptaörðugleikar og að hann vinni ekki helgavaktir. Þeir hljóta að synda í peningum þessa dagana á Stöð 2 fyrst þeir hafa efni á því að reka menn fyrir þá sök að vinna ekki helgavaktir og borga þeim svo fyrir að sitja heima hjá sér í einhverja mánuði. Reynsla mín af samstarfi við Ingimar er þannig að ég á bágt með að trúa að hann hafi átt í miklum samskiptaörðugleikum á vinnustað. Ég þekki fáa kurteisari menn en hann.

Það hlýtur að vera eitthvað annað sem varð þess valdandi að Ingimari var sagt upp. Viðtal Ingimars við Vilhjálm Egilsson, forstjóra Samtaka atvinnulífsins, fyrir nokkrum dögum er dæmi um það að hann þorði að spyrja alvöru spurninga. Það þarf kjark til að spyrja svona, vitandi að vinnuveitandi hans, Ari Edwald, forstjóri 365, er fyrrverandi forstjóri þessara sömu samtaka. Ingimar hafði líka kjark til að gagnrýna eigin vinnustað í erindi á Jafnréttisþingi fyrir nokkrum dögum, eins og Orðið á götunni hefur greint frá. Ég held að erindi Ingimars hafi m.a. fjallað um að íslenskum fjölmiðlum sé stjórnað af einsleitum hópi karla. Ingimar var þannig óhræddur að gagnrýna og spyrja gagnrýninna spurninga.

Í mínum huga er það miklu líklegra að þetta séu hinar raunverulegu ástæður þess að Ingimari var sagt upp fyrirvaralaust. Þær eru trúlegri en þær fábrotnu útskýringar sem yfirmenn Stöðvar 2 hafa gefið. Ég veit að Ingimar á eftir að spjara sig í kjölfar þessa leiðindamáls, en ég er ekki eins viss um að það sama eigi við um trúverðugleika fréttastofu Stöðvar 2.