7. feb. 2011

Efling almenningssamgangna samfélagsbylting á pari við hitaveituvæðinguna

Fyrir skömmu fór ég á ágætan fund hjá Samtökum um bíllausan lífsstíl um almenningssamgöngur. Ég hef velt fyrir mér framtíð almenningssamgangna að undanförnu, ekki síst í ljósi mikilla verðhækkana á olíu. Einhvern veginn er það svo augljóst að vinsældir almenningssamgangna munu aukast á næstunni þegar spár um áframhaldandi verðhækkanir rætast. Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær þorri almennings kýs að ferðast til og frá vinnu með strætisvagni. Þess vegna þarf að taka kerfið í gegn, til dæmis með því að bjóða upp á tíðari ferðir og betri biðskýli.

Fulltrúar Besta, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks mættu á þennan fund Samtakanna um bíllausan lífsstíl og ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir pínu vonbrigðum. Þar var mikið rætt um einstaka leiðir Strætó, samstarf sveitarfélaganna í byggðasamlaginu og um þróun byggðar á höfuðborgarsvæðinu. Allt ágætis pælingar en samt pínu andlaust.

Það kvað hins vegar við annan tón hjá Jóni Trausta, ritstjóra DV, í leiðara blaðsins í dag. Þar segir hann réttilega: ,,Líklega eru engin dæmi um neina aðgerð sem sameinar hagkvæmni, umhverfisvernd og velferð með sama hætti og styrking strætós. Aðstæðurnar til að fá fólk í strætó eru betri nú en nokkru sinni, og þörfin er meiri en nokkru sinni. Þetta er í raun sögulega einstakt tækifæri til að minnka umferð einkabíla á höfuðborgarsvæðinu." Jón hittir naglann á höfuðið - þetta er einstakt tækifæri sem ríki og borg verða að sameinast um að grípa. Með fyrsta flokks strætisvagnakerfi mætti minnka umferð og mengun í borginni, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, spara gjaldeyri og bæta kjör almennings. Það yrði samfélagsbylting á pari við það þegar þjóðin hitaveituvæddist í kjölfar olíukreppunnar á áttunda áratug 20. aldar.