20. jan. 2011

Tæp 90% raforku til stóriðju

Fram kemur í drögum að nýrri orkustefnu fyrir Ísland að hér hafa verið virkjaðar 17 TWh og af þeim fara 3 TWh á almennan markað og 14 TWh til stóriðju. Ef hér verða reist tvö álver til viðbótar þá bætast um 10 Twh við raforkuframleiðsluna. Hún verður þá 27 TWh og 24 TWh fara til stóriðju (þar af að lang mestu leyti til álvera), eða 89% af raforkuframleiðslu þjóðarinnar.
Ég skil ekki hvernig hagsmunasamtök eins og ASÍ og SA og heilu stjórnmálaflokkarnir geta álitið slíka þróun jákvæða fyrir þjóðina, alveg óháð umhverfisáhrifum og áhrifum á ferðaþjónustu. Það getur varla stuðlað að efnahagslegu öryggi og stöðugleika að selja tæplega 90% raforkuframleiðslunnar til einnar atvinnugreinar. Meira að segja hörðustu hægri menn, sama í hvaða flokki þeir eru, hljóta að taka undir það.