27. jan. 2011

Dagur B. mælir með fullri sjón á samfélagið með GPI

Ég leit aðeins á áætlunina Ísland 2020 - sókn fyrir atvinnulíf og samfélag. Þetta er ágætis plagg hjá Degi B. og félögum og margt skrifað þar af viti. Vonandi fer þessi ekki í skúffuna stóru. Einna merkilegast þótti mér að þarna er lagt til að við mælum árangur samfélagsins á fleiri vegu en með hagvexti. Þarna segir til dæmis á bls. 11: ,,Ef aukning þjóðartekna er á kostnað hnignunar umhverfis og auðlinda, eða aukinnar misskiptingar í þjóðfélaginu þá getur slík aukning í reynd leitt til minnkunar velsældar. Það er því mikilvægt að bregða upp fleiri mælikvörðum á velsæld en hagvextinum einum saman.”
Meðal þeirra mælikvarða sem nefndir eru í 2020 er Genuine Progress Indicator (GPI), sem nefndur er framfarastuðullinn upp á íslensku. Í umfjöllun um GPI segir: ,,Framfarastuðullinn tekur ýmislegt til greina t.d. misskiptingu tekna, kostnað vegna umhverfisspjalla og ósjálfbæra nýtingu auðlinda og leiðréttir hagvaxtarmælingar með tilliti til þessara þátta auk margra annarra. Ef þjóðarframleiðsla er ekki sjálfbær er vöxtur framfarastuðulsins lægri en vöxtur þjóðarframleiðslu.” Síðan er lagt til að þjóðhagsreikningar sem meta lífsgæði verði útvíkkaðir og upplýsingar til útreikninga á GPI verði safnað og fylgt eftir. Eitt af fimm efnahags- og þróunarmarkmiðum áætlunarinnar er að vöxtur framfarastuðulsins haldist ætíð sá hinn sami og vöxtur þjóðarframleiðslu.

Ég vona að þessi tillaga verði að veruleika og að mæling framfarastuðulsins leiði til heilbrigðari og uppbyggilegri þjóðfélagsumræðu. Eitt af því sem við hljótum að hafa lært af hruninu og aðdraganda þess er hversu takmarkaða sýn á samfélagið hagvaxtarmælingin veitir okkur. Það er eins og að horfa á heiminn í kringum okkur með öðru auganu. GPI myndi veita okkur fulla sjón – eða 20/20 sjón.
Meðfylgjandi er líklega þekktasta ræða sem flutt hefur verið um galla þess að einblína á hagvöxt, flutt af Robert Kennedy 18. mars 1968. Rúmum tveimur mánuðum seinna var hann skotinn til bana.