24. jan. 2011

Amx.is hvíslar um tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna og árásir á þingmenn

Þeir félagarnir á Amx.is heiðra mig í dag með fuglahvísli um færslu mína um Sigurð Kára og ásakanir hans í garð Birgittu Jónsdóttur. Ég kann þeim bestu þakkir fyrir að vekja athygli sjálfstæðismanna á færslunni, því þeir hljóta að spyrja sig hvort svona málflutningur á Alþingi sé hinum sómakæra Sjálfstæðiflokki til vegsauka.
Nú veit ég ekki hver heldur á penna í þessu fuglahvísli því á amx.is skrifa menn í skjóli nafnleyndar. Ég nenni yfirleitt ekki að eyða mörgum orðum í nafnleysingja en ég verð samt að nefna þrennt:
1. Fuglahvíslarinn skrifar: ,,Hann telur að sér sé heimilt, ekki síður en Agli Helgasyni, að taka virkan þátt í pólitísku bloggi á netinu." Ég trúi því varla að fuglahvíslarinn haldi því fram að opinberir starfsmenn megi ekki tjá sig opinberlega um stjórnmál. Ég held nú reyndar að Egill Helgason fái beinlínis borgað fyrir að fjalla um stjórnmál. En ég vinn meðal annars við að skrifa fréttir um starfsemi umhverfisráðuneytisins og auðvelda fjölmiðlum og almenningi að nálgast upplýsingar um ráðuneytið. Þegar ég hef stimplað mig út í lok vinnudags er mér frjálst að tjá mig um það sem mér sýnist, svo lengi sem það gengur ekki gegn 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
2. Fuglahvíslarinn spyr hvort það sé ekki of langt gengið að embættismaður skrifi svona í skjóli ráðherra. Í fyrsta lagi er ég ekki embættismaður. Fuglahvíslarinn getur lesið 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins til að kynna sér hverjir teljast til embættismanna. Í öðru lagi er rétt að benda Fuglahvíslaranum á að einstaklingum er frjálst að hafa skoðanir, og já jafnvel birta þær á netinu, án þess að þær hafi fengið sérstakt samþykki yfirmanns. Ég held líka að fuglahvíslarinn geri sér of miklar hugmyndir um starf upplýsingafulltrúa. Hann er, að minnsta kosti í mínu tilfelli, ekki pólítískur trúnaðar- eða bandamaður ráðherra, hann er einfaldlega skrifstofudýr sem reynir að vekja áhuga fjölmiðla á þeirri vinnu sem er unnin í ráðuneytinu og auðvelda almenningi að nálgast upplýsingar um starfsemi þess. Trúnaðurinn er við almenning, að teknu tilliti til áðurnefndrar 18. gr. laga um starfsmenn ríkisins. Þess vegna blogga ég ekki í skjóli neins.
3. Fuglahvíslarinn segir mig hafa ráðist á Sigurð Kára. Ætlunin var nú bara að segja skoðun mína, ekki að meiða. Ef Sigurður upplifir þetta sem árás þá biðst ég velvirðingar. En ef þetta var árás, hvað kallast það þá að dylgja um það úr ræðustól Alþingis að nafngreindur þingmaður stundi skipulagðar njósnir um aðra þingmenn?