10. des. 2010

Wikileaks og lausnin á loftslagsvandanum

Jón Guðni Kristjánsson flutti merkilegan pistil í Speglinum í gær um samskipti Bandaríkjanna og Kína í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn í fyrra. Skjöl sem Wikileaks hefur birt sýna að þessi ríki léku tveimur skjöldum við samningaborðið. Þannig virðast þau hafa verið búin að komast að niðurstöðu sín á milli fyrir fundinn um að ekki yrði skrifað undir bindandi samkomulag. En opinberlega var látið í veðri vaka að Kína og Bandaríkin væru fulltrúar andstæðra sjónarmiða. Þannig mun Hillary Clinton hafa staðfest við kínversk stjórnvöld, löngu fyrir Kaupmannahafnarráðstefnuna, að stjórn Obama myndi ekki víkja frá stefnu ríkisstjórnar W. Bush um að skrifa ekki undir bindandi sáttmála. En Obama fór engu að síður til Kaupmannahafnar og lék hlutverk leiðtoga hins vestræna heims með miklum bravör. Og hvernig stendur á þessu? Jú, þegar stórt er spurt á vettvangi heimsmálanna þá er svarið eiginleg alltaf það sama: ,,it´s the economy stupid." Það þjónar hagsmunum bandarískra fyrirtækja best að gera samninga við Kínverja um sölu á umhverfisvænni tækni og þekkingu, t.d. við þróun endurnýjanlegrar orku, kjarnorkuvera og umhverfisvænni kolaorkuvera. Enda hefur verið áætlað að þessi markaður velti 500 til 1.000 milljörðum dala árið 2013.
Þetta bendir til þess að samkomulag um loftslagsmál muni verða til á svipaðan hátt og samkomulagið um ósoneyðandi efni á sínum tíma. Vísindaleg vissa um umhverfisáhrifin liggur fyrir og þá er komið að þætti fyrirtækjanna sem fá ráðrúm til að þróa tæknilegar lausnir og koma þeim á markað. Og þá fyrst komast þjóðir heims að bindandi samkomulagi um samdrátt í losun.
Montrealbókunin þróaðist um það bil með þessum hætti. Vísbendingar um gat í ósonlaginu komu fram um miðjan áttunda áratuginn. Nokkrar þjóðir tóku strax forystu um samdrátt í losun, líkt og Evrópusambandið hefur gert í loftslagsmálunum, en alvöru alþjóðlegur samningur var ekki undirritaður fyrr en í Montreal 1987. Vissulega hafði almenningsálitið talsverð áhrif þar á, en það sem skipti líklega mestu var að bandarísk stórfyrirtæki eins og Dupont tóku forystu í því að framleiða og markaðssetja staðkvæmdarvöru sem voru ekki ósoneyðandi. Þannig þjónaði það orðið efnahagslegum hagsmunum Bandaríkjanna og fleiri vestrænna þjóða að komast að alþjóðlega bindandi samkomulagi um samdrátt í losun ósoneyðandi efna. Enda hefur alþjóðasamfélaginu tekist vel upp við að draga úr eyðingu ósonlagsins.
Og lærdómurinn af öllu þessi er þá væntanlega sá að peningaöflin ráða, ekki hugsjónir.