29. des. 2010

Bill Clinton fær sér ekki fleiri pylsur á Bæjarins bestu

Nú er vinsælt að velja tíu hitt og þetta ársins 2010. Vefmiðillinn Grist hefur valið topp tíu umhverfisfréttir ársins sem er að líða:

1. Nær allir þeir repúblíkanar sem voru kosnir til setu á bandaríska þinginu í ár telja að engar breytingar séu að verða á loftslaginu og þaðan af síður að mannskepnan hafi einhver áhrif þar á.
2. Frumvarp um loftslagsmál sem var samþykkt í bandarísku fulltrúadeildinni í fyrra var fellt í öldungadeildinni í ár.
3. Bill Clinton fékk sér pylsu á Bæjarins bestu um árið og fékk vægt hjartaáfall í kjölfarið. Hann er nú orðinn grænmetisæta, fyrstur bandarískra forseta.
4. Olíufyrirtæki reyndu að koma í veg fyrir að lög um loftslagsbreytingar yrðu samþykkt í Kaliforníu. Frumvarpið var hins vegar samþykkt í almennum kosningum af 61% kjósenda.
5. Kínverjar eyddu fúlgum fjár í endurnýjanlega orkugjafa á sama tíma og þeir lokuðu fjölda gamalla kolaorkuvera. Þeir hafa tekið forystu í notkun vindorku og 66% af heimsframleiðslu á sólar rafhlöðum fer fram í Kína.
6. Fjöldaframleiðsla á rafmagnbílum er hafin fyrir alvöru, t.d. með Nissan Leaf og Chevy Volt.
7. Freedom, ein vinsælasta skáldsaga ársins, fjallar öðrum þræði um umhverfismál.
8. Google og fleiri fjárfestar stefna að því að reisa vindmyllur út af austurströnd Bandaríkjanna sem munu framleiða allt að 6.000 megavött.
9. Monsanto lenti í miklum vandræðum með illgresi á árinu og í kjölfarið féllu hlutabréf þess í verði.
10. Fimm milljónir tunna af olíu runnu í hafið eftir að olíuborpallurinn Deepwater Horizon sprakk á Mexíkóflóa. Grist segir þetta stærsta mengunarslys sögunnar.

Það er aldrei að vita nema að ég velji topp tíu umhverfisfréttir ársins 2010 hér á landi. Allar tillögur eru vel þegnar.