30. nóv. 2010

Veiðimenn í vanda vegna loftslagshlýnunar

Sigmar B. Hauksson, formaður Skotveiðifélags Íslands, skrifaði áhugaverðan pistil í Morgunblaðið um helgina. Þar fjallar hann um breytingar í náttúru Íslands sem veiðimenn taka eftir vegna hlýnandi loftslags. Hann fjallar um lundastofninn sem hefur dregist saman um 25% síðastliðin fjögur ár og hann minnist einnig á fækkun í öðrum sjófuglastofnum. Sjóbleikja er önnur vinsæl veiðibráð sem á í vök að verjast. Síðustu sumur hefur dregið úr sjóbleikjuveiði hér við land vegna þess að hún leitar norður á bóginn í kaldari sjó. Þá minnist Sigmar á rjúpuna og segir talsvert af rjúpu á Austur-, Norður-, og Vesturlandi en hins vegar mjög lítið á Suðurlandi. Sigmar telur breytingar á veðurfari líklegustu skýringuna á þessu misvægi. Veðurfar á Suðurlandi henti þannig rjúpunni síður en gæsin njóti hins vegar góðs af því og þess vegna yfirgefi hún landið mun seinna en hún gerði fyrir tíu til fimmtán árum.
Það er fróðlegt að fá svona vitnisburð frá manni sem er mikið úti í náttúrunni og hefur fylgst með hegðun villtra dýra um langt skeið.
Ég vil þó gera athugasemd við eitt sem sem Sigmar ritar. Hann segir engar íslenskar plöntur í útrýmingarhættu. Umhverfisráðuneytið og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa sett upp ljósmyndasýningu um breytingar í náttúru Íslands vegna loftslagsbreytinga. Ein myndin er af fjallavorblómi sem er sjaldgæf jurt sem vex aðeins hátt til fjalla og hlýnandi loftslag gæti ógnað tilvist þess og fleiri tegunda fjallablóma. En svo gæti þetta misræmi í túlkun minni og Sigmundar falist í skilgreiningum. Þannig að ég er ekki að leiðrétta það sem hann segir, heldur frekar koma á framfæri vinsamlegri ábendingu.