19. apr. 2006

Neil Young er vænn og grænn


Aðdáendur Neil Young, ég þar á meðal, bíða nú með öndina í hálsinum eftir útgáfu nýjustu plötu kappans, ´Living with war´ þar sem hann flytur áróður gegn stríðinu í Írak og George Bush. Þetta er algjörlega óvænt útgáfa og það liðu víst bara 9 dagar frá því hann byrjaði að semja lögin og þangað til búið var að taka hana upp. Young hefur áður unnið sér til frægðar á stjórnmálasviðinu að styðja Ronald Reagan á sínum tíma þannig að hann verður ekki ásakaður um blinda vinstri villu. Þeir fáu sem hafa fengið að hlusta á plötuna segja að þetta sé meistaraverk sem standist samanburð við Harvest og vel það. Fullorðnir menn eru sagðir gráta hástöfum yfir laginu ´Flags of freedom´ þar sem kappinn syngur ásamt 100 manna kór.
Neil Young hefur líka getið sér gott orð fyrir að nota biodiesel á hljómsveitarrútuna sína á ferðalögum. Hann hefur líka aðstoðað köntrísöngvarann Willie Nelson við að boða fagnaðarerindi biodiesels í Bandaríkjunum. Ef átakið heppnast vel þá gæti það orðið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Og ekki veitir af því að samkvæmt nýjustu fréttum losuðu Bandaríkjamenn meira magn gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið árið 2004 en nokkru sinni áður og losunin hefur aukist um 15,8% frá 1990 til 2004. Vísindamenn hafa hins vegar sagt að það þurfi að minnka losunina um 60% fyrir miðja þessa öld miðað við árið 1990 ef koma eigi í veg fyrir hörmungar af völdum loftslagshlýnunar.