31. jan. 2006

Messíasarkomplex


Ef það kann einhver lækningu við messíasarkomplexi þá er hann vinsamlegast beðinn um að hafa samband. Á skömmum tíma hafa birst tvær greinar eftir mig í Fréttablaðinu um loftslagshlýnun. Þessi birtist í gær:

Kyoto sáttmálinn er lek vatnsfata

Hugsum okkur að þessi frétt birtist á forsíðu dagblaðanna á morgun: ,,Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út vegna bruna í stjórnarráðshúsinu um miðjan dag í gær. Allt tiltækt slökkvilið var sent á staðinn með leka vatnsfötu. Erfiðlega gekk að ráða niðurlögum eldsins og er stjórnarráðshúsið nú brunnið til grunna.”
Daginn eftir yrði slökkviliðsstjórinn líklega rekinn og tækjabúnaður slökkviliðsins yrði endurnýjaður. En hvernig stendur þá á því að stjórnmálamenn komast upp með að nota jafngildi lekrar vatnsfötu við að ráða niðurlögum loftslagshlýnunar af manna völdum? Almenningur krefst þess ekki að tækjabúnaðurinn verði endurnýjaður og enginn neyðist til að segja af sér.
Allt tiltækt slökkvilið 189 ríkja, þar á meðal Íslands, var sent til Montreal undir lok liðins árs þar sem rædd var framtíð Kyoto sáttmálans, en honum er ætlað að draga úr losun þjóða heims á gróðurhúsalofttegundum sem valda hlýnun loftslagsins. Árangur slökkvistarfsins var enginn. Á hverju ári bætast við niðurstöður rannsókna sem sýna fram á að vandamálið getur haft hörmulegar afleiðingar fyrir heimsbyggðina. Vísindamenn segja að draga þurfi úr losun iðnríkjanna á gróðurhúsalofttegundum um 70% fyrir árið 2050 ef koma eigi í veg fyrir gríðarlegar náttúruhamfarir og hungursneyð. Stjórnmálamenn hafa komið sér saman um að draga úr losuninni um 5,2%. Að auki geta ríkin komið sér undan því að standa við skuldbindingar sínar með allskyns undanleiðum. Árangurinn verður því kannski um 1 til 2%. Í Montreal var engin ákvörðun tekin um að endurnýja tækjabúnaðinn en það varð sátt um að halda áfram að ræða það án nokkurra skuldbindinga.
Hins vegar eru sum ríki sem ganga á undan með góðu fordæmi. Nokkur Evrópuríki hafa ákveðið að draga meira úr losun gróðurhúsalofttegunda en kveður á um í Kyoto sáttmálanum, t.d. Bretar um 60% á fimmtíu árum, Hollendingar um 80% a fjörutíu árum og Þjóðverjar um helming á fimmtíu árum. Á meðan stefna Íslendingar í þveröfuga átt. Samkvæmt Kyoto sáttmálanum eru Íslendingar í algjörum sérflokki og fá að auka losun gróðurhúsalofttegunda um 10%. Ef við höldum áfram að byggja álver eða aðra stóriðju neyðumst við til að fara með betlistaf á komandi samningafundi til að fá frekari undanþágur þegar þessu samningstímabili lýkur og það næsta tekur við árið 2013. Með því væru stjórnvöld að ganga þvert á vilja 80% þjóðarinnar sem telur að stjórnvöld geri of lítið til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda.
Það hefur verið sagt að loftslagið sé eins og sofandi dreki sem mannkynið potar í með priki. Einn daginn vaknar hann og þá er víst betra að vera hvergi nærri. Vonandi eiga Íslendingar framsýna leiðtoga sem geta orðið öðrum fyrirmynd með því að leggja frá sér betlistafinn og prikið áður en það verður um seinan.