25. nóv. 2005

Mörður og Einar eru grænmeti mánaðarins


Að þessu sinni deila þeir Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, með sér titlinum "grænmeti mánaðarins". Það er líklega í fyrsta skipti sem þeir deila einhverju á milli sín í stað þess að deila sín á milli. Jájá.
Einar fór á fund sjómanna og tilkynnti um friðun 5 svæði fyrir Suðurlandi sem eru alls um 80 ferkílómetrar fyrir öllum veiðum nema uppsjávarveiðum í hringnót og flottroll. Tilgangur friðunarinnar er að vernda kóralsvæði sem þarna er að finna. Hann sagði svo: ,,Á undanförnum árum hafa rannsóknir verið að sýna okkur æ betur mikilvægi umhverfisþátta fyrir nytjastofna okkar. Við horfum líka í auknu mæli til umhverfisins í sjónum á forsendum varúðar- og vistkerfisnálgunar. Það þarf að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á þætti vistkerfisins sem við hvorki vitum ekki nægilega mikið um, né hvaða áhrif þeir hafa í vöxt og viðgang nytjastofna. Og það þarf, og við viljum, varðveita líffræðilega fjölbreytni hafsins til framtíðar.” Einar fer vel af stað og vonandi að hann segi orðið varúðarnálgun aftur og aftur á meðan hann er sjávarútvegsráðherra.
Mörður lagði fram fyrirspurn um daginn á Alþingi þar sem hann spurði umhverfisráðherra út í Kyoto-bókunina. Fyrirspurnin er svona:
    1.      Er ráðherra sammála þeim orðum Davíðs Oddssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, á síðasta landsfundi flokksins að „Kyoto-samþykktin [byggist] vissulega á afar ótraustum vísindalegum grunni“?
    2.      Hvort telur ráðherra að vísindagrunnur undir niðurstöðum milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) frá 2001 sé traustur eða ótraustur? Hvort telur ráðherra að vísindagrunnur loftslagsskýrslu Norðurskautsráðsins (ACIA) frá 2004 sé traustur eða ótraustur?
    3.      Telur ráðherra að samkomulag sem ætlað er að taki við af Kyoto-bókuninni eftir 2012 eigi að byggjast á þeirri bókun eða vill hann að samið verði að nýju án tillits til Kyoto- bókunarinnar, eins og Bandaríkjastjórn hefur lagt til?

Það verður fróðlegt að heyra hvert svar Sigríðar Önnu verður. Vonandi að orðið varúðarnálgun verði henni ofarlega í huga.