25. okt. 2005

Sudoku, sudoku, sudoku


Áhugasamir lesendur grænmetis hafa eflaust tekið eftir því að ritstjórnin hefur verið ódugleg við að stinga niður penna undanfarið. Ástæðan er Sudoku. Þessar skemmtilegu þrautir tröllríða nú breskum dagblöðum og almenningur er gripinn sudoku æði. Um helgina fór fram fyrsta breska sudoku meistaramótið þar sem 18 ára fyrsta árs nemi í stærðfræði við Sheffield háskóla, Nina Pell, fór með sigur af hólmi. Hún leysti erfiðustu Sudoku þraut sem birt hefur verið í Bretlandi á aðeins 13 mínútum og 48 sekúndum og skaut þar með 250 öðrum keppendum ref fyrir rass. Fyrir það hlaut hún 1.000 pund, sem eru vel rúmar 100.000 krónur. Ætli ég sé ekki helmingi lengur að leysa miðlungsþraut í Independent en hún að leysa þá erfiðustu.
En ég mæli með þessari dægrastyttingu. Hún hentar vel fólki eins og mér sem hefur hvorki gáfur né þolinmæði til að gera krossgátur. Nú þegar styttist óðum í 28 ára afmælisdaginn þá hef ég sett mér það markmið að vera orðinn Íslandsmeistari í Sudoku fyrir þrítugt.

www.sudoku.com