25. okt. 2005

Davíð, gróðurhúsaáhrifin og uggianaqtuq


Las umræða á malefnin.com um ræðu Davíðs Oddssonar og ummæli hans um loftslagsbreytingar. Þar sagði hann m.a.: ,,Kyoto samþykktin byggir vissulega á afar ótraustum vísindalegum grunni. En viðleitnin með sáttmálanum er örugglega í rétta átt. Við sjálfstæðismenn höfum tekið fullan þátt í umræðunni um hlýnun jarðar. Því miður hefur sú umræða á köflum verið borin uppi af óræðri tilfinningasemi og í versta falli innantómum áróðri fremur en rökum. Nýlega höfðu málsmetandi menn, vísindamenn og stjórnmálamenn, uppi stór orð upp um það að okkur Íslendingum stafaði mikil hætta af hlýnun jarðar þar sem ein afleiðing hennar væri breytingar á Golfstraumnum. Úr þessu var mikið gert. En svo birtist nýlega frétt, þó miklu fyrirferðaminni, þar sem vísindamenn kynntu þá niðurstöðu sína að allt benti til þess að þrátt fyrir hugsanlega hlýnun á norðurslóðum myndi Golfstraumurinn halda áfram sínu hringsóli. Þessi litla saga kennir að vísindin verða að fá frið og tíma til að nálgast niðurstöður í flóknum málum. Það er sjálfsagt að hafa fullan vara á."
Þetta fer nú nett í pirrurnar á mér. Davíð er einn af þessum stjórnmálamönnum sem skynjar tíðarandann og hann veit greininlega að fólk hefur sífellt meiri áhyggjur af loftslagsbreytingum. Þess vegna segir hann að það sé sjálfsagt að hafa allan vara á og að viðleitnin með Kyoto sáttmálanum sé örugglega í rétta átt. En hann stenst ekki þá freistinga að leita í orðabanka Bush-stjórnarinnar: ótraust vísindi, tilfinningasemi og innantómur áróður.
Í fyrsta lagi er það að segja um Golfstrauminn að umræðan um að hann kynni að stöðvast bar hæst með afar dramatískri heimildamynd BBC. Virtustu vísindamenn á þessu sviði hafa hins vegar sagt að það séu afar litlar líkur á því að Golfstraumurinn stöðvist. En Davíð kýs að nota dramatíseraðar heimildamyndir til að reyna að klína áróðursstimpli á alla umræðu um loftslagshlýnun.
Rannsóknir sem voru birtar nýlega sýna fram á að hlýnun loftslags hefur þegar dregið úr úrkomu í Austu-Afríku og að ís á jöðrum Suður heimskautsins minnkar hraðar en talið hafði verið. Ég heyrði að vísu talað um að norsk rannsókn hefði sýnt fram á að snjór á Grænlandsjökli hefði þykknað. Það gæti að vísu verið vegna þess að raki í andrúmsloftinu hefur aukist vegna hlýnunar sjávar sem leiðir til aukinnar úrkomu.
Fyrst að Davíð trúir ekki niðurstöðum vísindamanna þá er sjálfsagt að benda honum á að inútítar hafa tekið upp nýtt orð í tungumáli sínu eftir að loftslagshlýnunar tók að gæta. Uggianaqtuq táknar sem sagt óvenjulegt eða óvelkomið veður. En kannski að Davíð hafi rétt fyrir sér og Inúítar séu bara svona uppteknir af ótraustum vísindum, tilfinningasemi og innantómum áróðri.