28. sep. 2005

Verkamannaflokkurinn ræðst á mann á níræðisaldri


Starfsmenn Verkamannaflokksins hentu Walter Wolfgang, 82 ára gömlum manni öfugum út af landsþingi flokksins í dag. Það sem gerir þetta að algjörum skandal er að maðurinn hefur verið í flokknum í hálfa öld og flúði til Bretlands á sínum tíma undan nasistum í Þýskalandi. Walter þessi hafði sem sagt vogað sér að hrópa úr sæti sínu að Jack Straw utanríkisráðherra færi með rangfærslur í ræðu sinni um ástandið í Írak. Flokksþingið er orðið svo vel undirbúin sýning að skoðanaskipti leyfast varla. Maðurinn var leiddur út úr þingsalnum með valdi og annar maður sem ætlaði að koma honum til hjálpar var handtekinn á grundvelli bresku hryðjuverkalöggjafarinnar! Gamlir jaxlar úr flokknum muna betri tíma þegar landsþingin einkenndust af harðvítugum átökum um málefni. Nú má hvorki heyrast hósti né stuna frá hinum almenna flokksmanni. Svo undrast menn yfir því að almenningur nenni ekki að taka þátt í starfi stjórnmálaflokkanna. Ég held að margir stjórnmálamenn líti orðið á það sem kvöð að "þurfa" að taka þátt í umræðu með fótgönguliðum innan flokkanna. Það er ekki langt síðan að almennir framsóknarmenn kvörtuðu undan því að Halldór Ásgrímsson, formaður flokksins, væri í engu sambandi við hinn almenna flokksmann í Reykjavík. Þess vegna hefði hann mislesið stöðuna í viðræðum um Reykjavíkurlistann á dögunum þegar hann skammaði Samfylkinguna fyrir að klúðra samstarfinu þegar hinn almenni flokksmaður skellti skömminni á vinstri-græna. Ég hef líka heyrt eina af vonastjörnum félagshyggjuflokkanna tala um að tími stjórnmálaflokkanna sé liðinn. Nú geti stjórnmálamenn bara verið í beinu sambandi við kjósendur. Stjórnmálamenn vilja bara fá að vera í friði til að sinna vinnunni án þess að þurfa að sitja undir endalausum athugasemdum frá flokkssystkynum.
Annars er þetta kannski ekkert nýtt. Jónas frá Hriflu fór nokkrum orðum um þetta í bók Indriða G. Þorsteinssonar, Samtöl við Jónas: ,,Þú hefur bent á það áður, Jónas að í dag gangi illa að koma fólki saman á fund. … Almennur áhugi á stjórnmálum hefur verið gífurlegur á fyrstu tugum aldarinnar. Áhuginn var bara drepinn, sagði Jónas nokkuð snöggt. Hann þurfti aldrei að deyja. En hann var bara drepinn af þessum atvinnustjórnmálamönnum”.