29. sep. 2005

Umhverfissóðar mánaðarins

Þá er komið að því að velja umhverfissóða mánaðarins í fyrsta skipti hér á grænmeti. Þrátt fyrir að ég virði vinina á Vefþjóðviljanum/andriki.is fyrir frjálslynd viðhorf þá fá þeir titilinn fyrir linnulausan hatursáróður í garð umhverfisverndarsinna. Það furðulega er að einn úr hópi ritstjórnarinnar, Haraldur Johannesson, er orðinn aðstoðarmaður umhverfisráðherra. Súrara getur það varla orðið.
Nú nýlega vöktu þeir félagar athygli á því að þeir væru byrjaðir að selja bókina Hið sanna ástand heimsins eftir Bjorn Lomborg. Ég fagna því að framtaksamir menn vilji vekja umræðu um umhverfismál en það er samt sorglegt að horfa um á andríkismenn berja höfðinu við steininn. Bjorn Lomborg er ekki alvitlaus og margt í hans málflutningi er þess virði að lesa það til að fá aukinn skilning á ástandi heimsins. En það er margt í bókinni sem hefur verið hrakið á vísindalegum forsendum. Að auki virðist útgangspunktur Lomborg vera sá að heimurinn sé þrátt fyrir allt ekki að farast. Gott og vel. Ég held að flestir umhverfisverndarssinar samþykki það og heimsendaspár gera málstað þeirra ekki gott. En þrátt fyrir það verða menn að virðukenna að náttúran er undir miklu álagi víðast hvar í heiminum vegna mannanna verka. Regnskógarnir eru felldir til rýma fyrir ýmis konar landbúnaðarframleiðslu, koltvísýringur mælist sífellt meiri í andrúmsloftinu vegna brennslu olíu og kola, fiskistofnar eru ofveiddir og jarðvegseyðing ógnar lífríki víða um heim. En þetta skiptir ekki máli að mati umhverfissóðanna vegna þess að mannkynið er þrátt fyrir allt ekki í útrýmingarhættu. Við getum líklega aðlagað okkur að öllum fjandanum, að minnsta kosti við ríka fólkið á Vesturlöndum. Og það dugar til þess að gera andríkismenn ánægða og sinnulausa um umhverfismál. Lítið gleður einfalda.